Íþróttum og stjórnmálum er oft blandað saman og hvergi meira en einmitt á ólympíuleikunum. Allt frá skrautsýningu Hitlers í Berlín 1936 hafa ólympíuleikarnir verið vettvangur áróðurs valdhafa stórveldanna.
Moskva á í þetta sinn að gegna hlutverki Berlínar. Allur heimurinn á að dást að afrekum svonefndrar sovézkrar æsku. Með því heiti er átt við hóp ríkislaunafólks, sem í hefur verið kýlt lyfjum um nokkurt árabil.
Afreksfólk af þessu tagi er eins langt frá hinni forngrísku ólympíuhugmynd og hugsazt getur. Það býr við algera harðstjórn þjálfara sinna og má ekki sjálft taka hinar minnstu ákvarðanir. Afreksþrælar væri nákvæmara orð.
Á þessu óhugnanlega sviði hafa eigendur Sovétríkjanna einkum att kappi við eigendur Austur-Þýzkalands. Íþróttastjórar Vesturlanda eru ekki heldur saklausir af þessu kapphlaupi, sem hefur leitt til úrkynjunar ólympíuleikanna.
Gamlir hræsnarar á borð við Killanin lávarð horfa á þjálfaða þræla og ímynda sér, að þeir sjái frjálsborna Forn-Grikki. Þeir neita að viðurkenna, að undir þeirra forsjá er verið að búa til vélmenni.
Mörg önnur er pólitíkin á þessu sviði. Um nokkurt árabil hefur verið vinsælt að útiloka þjóðir frá fjölþjóðaleikum, þar á meðal ólympíuleikum. Þriðji heimurinn og arabaríkin hafa gengið harðast fram í slíku.
Þessar aðgerðir hafa einkum beinzt að ríkjum á borð við Ísrael og Suður-Afríku. Þær hafa líka verið notaðar gegn öðrum ríkjum, sem ekki hafa fengizt til að taka þátt í frystingu Ísraels, Suður-Afríku og slíkra ríkja.
Í rauninni er það einkum þessi útilokun annarra, sem menn eiga við, þegar þeir minna á, að íþróttir og stjórnmál fari ekki saman. Slíkar aðfarir eru mun grófari en þær, þegar ríki neita sjálfum sér um þáttökku.
Carter Bandaríkjaforseti er ekki að taka ákvörðun fyrir útlendinga, þegar hann segist ætla að vinna gegn þátttöku Bandaríkjanna í olympíuleikunum í Moskvu. Hann er ekki að útiloka aðra, allra sízt Sovétríkin.
Að vísu hvetur hann vestræna ríkisstjórnir til að feta í fótspor sín. En hver þeirra ræður sinni niðurstöðu. Frakkar ætla að senda fólk til Moskvu, en á ýmsum öðrum stöðum í Vestur-Evrópu er enn verið að hugsa málið.
Gott væri, ef framtak Carters leiddi til þess, að olympíuleikar legðust af í núverandi mynd úrkynjunar. Betra væri, að þeir yrðu síðan endurvaktir með föstu aðsetri við Ólympíu á Pelopsskaga í Grikklandi.
Slík gagnbylting mundi draga úr skrautsýningum og Pótemkintjöldum stórvelda, svo og togstreitu þeirra um gestgjafaréttinn. Hún mundi draga úr möguleikum á uppákomum eins og þeirri, sem hertaka Afganistan hefur leitt af sér.
En hún nægir ekki ein sér. Einnig þarf að koma í veg fyrir, að fólk mæti á ólympiuleikana í fylkingum sem fulltrúar ríkja sinna. Það á að fá að mæta þar sem einstaklingar, jafnvel gegn vilja ráðamanna viðkomandi ríkja.
Og þar á ofan væri þrælahaldið enn óleyst. Áfram munu mæta þar opinberir atvinnumenn, afmyndaðir af lyfjaáti og undir algerri stjórn þjálfara sinna. En því miður hefur enn ekki fundizt nein leið til að losna við þátttöku vélmenna.
Altjend er hugsjón ólympíuleikanna orðin svo gatslitin og hræsnisfull, að Moskvuleikjunum má vel fórna til minningar um Afganistan.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið