Einkaframtak Gunnars.

Greinar

Einkaframtak Gunnars Thoroddsen í tilraunum til stjórnarmyndunar má líta ýmsum augum. Sumir telja hann hafa svikið flokk sinn fyrir stól forsætisráðherra. Aðrir telja hann hafa höggvið þann hnút, sem minni háttar stjórnmálamenn hafi ekki getað leyst.

Eitt er þó víst, að sá tími er liðinn, að Morgunblaðið stjórni almenningsálitinu í máli sem þessu. Menn munu taka afstöðu á svipuðum grunni og þeir tóku áður afstöðu til Gunnars Thoroddsen í valdastreitu hans og Geirs Hallgrímssonar. Hún er nú loksins orðin opinber.

Uppreisn Gunnars er óneitanlega síðbúin. Fyrir síðustu kosningar hafði hann góðan stuðning í þingflokki sjálfstæðismanna. Þá var helmingur þingflokksins talinn hlynntur Gunnari og hinn helmingurinn hlynntur Geir. En nú hafa þar Geirsmenn bæði tögl og hagldir.

Á föstudaginn var klofningurinn ekki orðinn sá, sem hann varð svo um helgina. Í fyrstu gerði Gunnar ekki annað en að óska eftir stuðningi þingflokksins til framhalds viðræðna hans við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag, sem höfðu reynzt árangursríkari en tilraunir annarra.

Þingflokkur sjálfstæðismanna gat auðvitað heimilað Gunnari þetta, til dæmis með fyrirvara um forsætisráðherrann. Kannski hefði Gunnar getað myndað stjórn fyrir Geir eins og Ólafur Jóhannesson gerði fyrir hálfu sjötta ári.

Ef það hefðu verið Matthías Bjarnason eða Matthías Mathiesen, sem hefðu náð svona góðu einkasambandi við stjórnmálamenn annarra flokka, gæti flokkurinn hugsanlega sætt sig við aðferðina. En af því að það var Gunnar, var aðferðin móðgun við formann flokksins, Geir Hallgrímsson.

Vegna hinna sérstöku aðstæðna í Sjálfstæðisflokknum hefði umboð til Gunnars jafngilt vantrausti á Geir. Þess vegna kaus þingflokkurinn að ítreka það umboð, sem hann hafði áður veitt Geir til viðræðna við aðra flokka. Þessi afstaða var skiljanleg.

Með töluverðri teygingu ímyndunarafls var tillagan um ítrekað umboð Geirs túlkuð sem breytingartillaga við tillöguna um nýtt umboð Gunnars. Tillaga Gunnars kom því alls ekki til atkvæða. Hlýtur það að teljast ákaflega sérkennileg málsmeðferð.

Þessi sjónhverfing átti að hindra vitneskju fólks um stuðning og hlutleysi í þingflokknum gagnvart framtaki Gunnars. Hún dugar þó skammt, ef Gunnar myndar stjórn, sem verður varin falli af tveimur eða fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Og það var einmitt þessi þingflokksfundur á föstudaginn, sem magnaði klofninginn. Gunnar lét nefnilega ekki segjast, þótt aðild Sjálfstæðisflokksins að stjórn hans væri úr sögunni. Hann hélt áfram að mynda stjórnina sem einstaklingurinn Gunnar Thoroddsen.

Í morgun var ekki vitað, hvort ríkisstjórn hans yrði að veruleika. Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt að taka þátt í henni og búizt er við svipaðri niðurstöðu í Alþýðubandalaginu í dag. Þá reynir á, hvaða hlutleysi Gunnar getur tryggt sér meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Óneitanlega ber þingflokkur sjálfstæðismanna ábyrgð á því, að stjórnarkreppan er ekki leyst með samstjórn Alþýðubandalags, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þingflokkurinn hafði meiri áhuga á spennunni milli Gunnars og Geirs en á sjálfum þjóðmálunum. Flokkurinn hefur teflt sér í patt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið