Aðhald í tæka tíð.

Greinar

Leiftursókn Sjálfstæðisflokksins gegn verðbólgu náði ekki fram að ganga í kosningunum í desember. Greinilegt var, að kjósendur óttuðust offors og hölluðust fremur að hægfara sókn gegn verðbólgu í stíl Framsóknarflokksins.

Þetta viðurkenndi Morgunblaðið síðar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn virtist einangraður. Þá bauð blaðið faðminn til allra átta og talaði meira að segja um nauðsyn “sögulegra sátta” Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags.

Málefnasamningur hinnar nýju ríkisstjórnar dregur dám af þessari staðreynd. Í verðbólgumálum er hann fremur hægfara og raunar óljós. Satt að segja er ekki hægt að átta sig á, hvort hann felur í sér nokkra sókn gegn verðbólgu.

Að vísu er í öðru orðinu talað um útbreiðslu verðtryggingar og sérstaklega nefnd full verðtrygging sparifjár. En í hinu orðinu er sagt, að verðbótaþáttur vaxta skuli ekki hækka 1. marz og síðan jafnvel lækka.

Ef ríkisstjórnin ætlar sér að verðtryggja innlán, en ekki útlán, er hætt við, að reynslan neyði hana til að skipta um skoðun. En trúlega er hér bara um að ræða þessa venjulegu óskhyggju, sem einkennir alla málefnasamninga.

Svo virðist sem ríkisstjórnin viti af hörðustu rótum verðbólgunnar, því að málefnasamningurinn fjallar um stóraukið aðhald í ríkisbúskapnum. Hætta á gegndarlausri peningaprentun í Seðlabanka og hafa hóf á erlendri skuldasöfnun.

Það dugir að vísu ekki eitt sér gegn verðbólgunni að reka ríkissjóð án greiðsluhalla. Framsóknarflokkurinn hafði þá stefnu í síðustu vinstri stjórn. En bættur hagur ríkis fékkst með hækkuðum sköttum og verðbólgan jókst.

Því miður er ekkert rætt um skatta í málefnasamningnum. Það vekur auðvitað ugg um, að einhverjar hækkanir séu fyrirhugaðar. Ummæli samningsins um aðhald í ríkisbúskap gefa þó á móti nokkra von um hófsemi í skattheimtu.

Hinu er þó ekki að leyna, að málefnasamningurinn stefnir í formi verðjöfnunar af ýmsu tagi að auknum álögum á íbúa suðvesturhorns landsins. Það á að verðjafna hitun, rafmagn, síma og meira að segja flutningskostnað.

Ríkisstjórnin þyrfti helzt að hafa tvennt í huga í verðjöfnunarofforsinu. Í fyrsta lagi má verðjöfnun ekki draga úr áhuga manna að leggja í nauðsynlegar framkvæmdir á borð við jarðvarmaveitur á sem flestum þéttbýlissvæðum.

Í öðru lagi hefur verðjöfnun fleiri hliðar en þær, sem getið er um í málefnasamningi. Breiðholtsbúar hafa að meðaltali mun hærri samgöngukostnað vegna vinnu sinnar en íbúar sjávarplássa. Og hvað um jöfnun á tekjum eftir landshlutum?

Hin harða dreifbýlisstefna ríkisstjórnarinnar lýsir sér líka í landbúnaðarkafla málefnasamningsins. Samkvæmt honum á að endurvekja hina fullkomnu sjálfvirkni í fjármögnun landbúnaðar, sem Ingólfur á Hellu kom á í tíð viðreisnar.

En þá voru líka uppgangstímar í landinu. Þjóðin kveinkaði sér ekki svo mjög undan byrðum landbúnaðar. Ástandið er allt annað núna og ríkisstjórnin getur hæglega farið flatt á ofrausn í garð landbúnaðar.

Með þessum athugasemdum er ekki sagt, að málefnasamningurinn sé vondur. Nokkur atriði í honum valda áhyggjum, sem ríkisstjórnin dreifir vonandi, þegar til kastanna kemur. En ekki sakar, að hún fái aðhaldið í tæka tíð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið