Hornið

Veitingar

Hin nýlega veitingastofa Hornið hefur bezt hlutfall verðs og gæða af þeim stöðum, sem fjallað hefur verið um í gæðaprófun Vikunnar. Þar má fyrir tiltölulega lítið verð fá mat og þjónustu, sem jafnat á við sum vínveitingahúsin og slær önnur þeirra út.

Hornið er lítið og tekur aðeins rúmlega 40 í sæti. Sæmilegt rými er milli borða og hreinlæti í veitingasal er á háu stigi. Andrúmsloftið er viðkunnanlegt og hvetur til langrar setu. Lágvær tónlistin er vel valin.

Innréttingar eru einfaldar og þó djarfar. Mest áberandi eru hinar gífurlegu pappírsljósakrónur yfir borðunum. Og fljótlega beinast augun að innmúruðum peningaskápnum í einu horninu.

Tágastólar eru við smíðajárnsborð með einkar skemmtilegum marmaraplötum. Steinflísar eru á gólfi og grár panill í veggjum og lofti. Á veggjum hangir ýmislegt dót, svo og stór skólatafla, sem á er krítaður réttur dagsins.

Gluggar eru mjög stórir og tjaldalausir, svo að tengslin við umferðina í Hafnarstræti eru náin. Kuldanum frá glugganum er svo mætt með miklu blómaskrúði fyrir innan. Það gefur stofunni tiltölulega hlýlegan blæ, þrátt fyrir gluggana.

Ítalskt
Ítölsk þjónustan var ágæt. Þjónarnir tveir virtust hafa nægan tíma til að sinna gestum, þótt Hornið væri um það bil fullsetið. Þeir voru ekki eins lærðir og íslenzkir fagmenn, en bættu það upp með ljúfmennsku og brosi.

Matseðillinn var furðu stór á svona litlum stað. Hann er saminn undir ítölskum áhrifum, á franskri tungu, – og með íslenzkum skýringum. Boðið var upp á rétt dagsins, sex forrétti, ellefu aðalrétti, fimm pizzur og fimm eftirrétti.

Kjötréttirnir voru aðeins tveir, lamb og kjúklingur. Mest var byggt á sjávarréttum og voru þeir átta af ellefu aðalréttum. Það gladdi auga mitt, því að hér á landi er fiskur og önnur sjávarfæða eitt bezta hráefnið.

Því miður hafði Hornið frystan fisk á boðstólum, en ekki ferskan, sem fékkst þó sama dag í fiskbúðum. Og Hornið gerði ekki skarpan greinarmun á rauðsprettu, smálúðu og ýsu í eldhúsinu, þótt matseðillinn þykist gera það.

Matnum var fallega komið fyrir, oftast í djúpum, skemmtilegum skálum með hrísgrjónum í botni. Tilfinning fyrir lystaukandi útliti matar virtist vera mun meiri en gengur og gerist á íslenzkum veitingastofum. Og maturinn var heitur.

Hörpuskelfiskur
Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með hrísgrjónum, ananas og karrísósu var frekar smávaxinn og virtist fremur vera úr dós en frysti. Samt var hann meyr og hafði eðlilegt bragð. Meðlætið var ágætt, seljustönglar, hrásalat og gulrætur.
Þessum rétti sem flestum öðrum fylgdi gott hvítlauksbrauð og grautsoðin hrísgrjón, sem mér fannst lítið til koma. Ég tek stinn hrísgrjón langt fram yfir þessi.
Verðið er 3.800 krónur.

Smálúðuflök
Smálúðuflök í bakaðri kartöflu með rækjusósu báru þess greinileg merki, að þau voru úr frysti. Sem slík voru þau vel matreidd, ekki ofsoðin. Þau hvíldu á mjög stórri, opinni kartöflu. Mér fannst þetta sæmilegt, en fremur bragðdauft.
Verðið er 2.850 krónur.

Ýsa?
Pönnusteikt “smálúða” með kapers, lauk og hvítlauksbrauði var réttur dagsins. Mér fannst lúðan minna mig mjög á ýsu. En hún var mjög góð, mátulega steikt, mjúk og safarík. Með henni fylgdi ágætt hrásalat, gúrka og sítróna, svo og áðurnefndu, grautsoðnu hrísgrjónin.
Verðið er 2.390 krónur, sannkölluð kostakaup.

Humarhalar
Smjörsteiktir humarhalar með banönum og hrísgrjónum voru smávaxnir. Þeir höfðu verið steiktir fulllengi og við of mikinn hita, því að þeir voru allt að því brenndir. Þeir voru þó enn meyrir og reyndust búa yfir ágætu humarbragði.
Verðið er 6.400 krónur, ódýrara en á vínveitingahúsunum, en ekki eins gott.

Spaghetti
Spaghetti með tómötum og hvítlauk reyndist vera spaghetti í sérhannaðri tómatsósu, fremur lítilfjörlegur matur.
Verðið er 2.450 krónur.

Kjúklingur
Ofnbakaður hnetukjúklingur með salati, ofnbakaðri kartöflu og hvítlaukssmjöri var fremur mikið bakaður og þurr, en eigi að síður næstum því frambærilegur. Með honum fylgdi bráðið hvítlaukssmjör. Hnetubragð fann ég hvergi.
Verðið er 4.300 krónur.

Lamb
Lambakjöt að austurlenzkum hætti reyndist vera fyrirtaks matur á góðu verði. Þetta var blanda af kjöti og grænmeti, borin fram í ágætri sósu, ættaðri af tómötum. Kjötið var bæði meyrt og bragðgott.
Verðið er 3.300 krónur.

Pitsa
Ég prófaði pizzuna með tómati, osti, spergli og pepperoni, svonefnda Napólí-pizzu. Það var hápunktur prófunarinnar, því að þetta var langbezta pitsa, sem ég hef fengið hér á landi. Deigbotninn var næfurþunnur og stinnur. Áleggið var í gullnu samræmi. Svo var pitsan sjóðheit, þegar hún kom á borðið. Það var eins og ég væri kominn til Ítalíu.
Verðið er 2.450 krónur. Verð á öðrum pizzum er frá 2.200 krónum upp í 2.900 krónur.

Camembert
Djúpsteiktur camembert-ostur með jarðarberjamauki var mjög vel heppnaður, linur alla leið í gegn.
Verðið er 1.550 krónur sem eftirréttur.

Alvörukaffi
Eins og vera ber á veitingastað undir ítölskum áhrifum var boðið upp á almennilegt kaffi úr espressovél. Þar var venjulegt espresso, café latte með loftþeyttri mjólk og cappucino með súkkulaðidufti. Kaffið eitt er heimsóknar virði.
Verð hverrar tegundar er 450 krónur.

Alvörute
Hornið er eini staðurinn, sem ég þekki hér á landi, sem hefur komið sér upp temenningu. Þar geta gestir valið um tvær tegundir, Earl (misritað Early á matseðli) Gray og hið kínverska Jasmin. Þetta framboð er merk nýjung í veitingamennsku. Kannski fáum við bráðum Lapsang Souchong, Darjeeling og Formosa Oolong.
Verð hvorrar tegundar er 450 krónur.

Hálft verð

Meðalverð sex forrétta er 1.300 krónur, ellefu aðalrétta 3.600 krónur – og 3.200 krónur, ef pizzurnar fimm eru meðtaldar. Meðalverð fimm eftirrétta er 1.500 krónur.

Þríréttuð máltíð án öls og kaffis ætti því að kosta að meðaltali um 6.400 krónur og 7.500 krónur með öli og kaffi.

Þetta eru helmingi lægri tölur en þær, sem tíðkast í vínveitingahúsunum. Hornið er að vísu engin Saga eða Holt, en býður þó fyrir þetta verð upp á mat, sem er í sómasamlegu meðallagi, eftir því sem mínar kröfur gerast, framreiddan á alúðlegan hátt í vingjarnlegu umhverfi.

Vínið vantar

Hornið er án efa meiri háttar innlegg í íslenzkan veitingarekstur, þótt lítið sé. Þar vantar nú fyrst og fremst vínveitingaleyfi. Með góðum, léttum vínum mundi matargerð eldhússins komast mun betur til skila.

Hornið er ágætt dæmi um stofu, sem veita ætti undanþágu fyrir létt vín, alveg eins og Esjuberg og Loftleiðakaffitería hafa fengið og rekið með sóma. Af hverju rugla yfirvöld alltaf saman brennivínum og fylleríi annars vegar og matarvínum og borðhaldi hins vegar?

Hornið fær sex fyrir matreiðslu, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Heildareinkunn veitingastofunnar er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan