Gunnar burstaði Geir.

Greinar

Munurinn á fylgi Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar er svo hrikalegur, að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki staðið undir núverandi afstöðu sinni. Þrír af hverjum fjórum sjálfstæðismönnum styðja fremur Gunnar en Geir og þar að auki allur þorri óháðra kjósenda.

Skoðanakönnunum Dagblaðsins getur skeikað um nokkur prósentustig eins og öðrum könnunum af því tagi. En í þetta sinn eru úrslitin svo eindregin, að hugsanlegar skekkjur skipta ekki nokkru máli. 85% sjálfstæðismanna og óháðra styðja Gunnar, en aðeins 15% þeirra styðja Geir.

Þess ber að gæta, að með orðinu “sjálfstæðismenn” er átt við kjósendur Sjálfstæðisflokksins, einnig þá sem ekki eru flokksbundnir. Reikna má með, að fylgi Geirs sé eitthvað skárra meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna. Altjend fékk hann þessi 109 atkvæði í flokksráðinu!

Samkvæmt könnuninni eru 30% Íslendinga sjálfstæðismenn og önnur 30% eru óháðir kjósendur. Það er í þessum tveimur hópum, samtals 60% þjóðarinnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn Ieitar fylgis í kosningum. Sem kosningavél hlýtur flokkurinn að verða að stokka spilin.

Með Geir Hallgrímssyni nær Sjálfstæðisflokkurinn til fjórða hvers kjósanda flokksins, en ekki hinna þriggja, né til óháðra kjósenda. Með Gunnari Thoroddsen nær flokkurinn hins vegar til mikils hluta sjálfstæðismanna og til nær alls þorra óháðra kjósenda.

Þingflokkur sjálfstæðismanna, miðstjórn og flokksráð hafa því hafnað þeim leiðtoga, sem leitt gæti flokkinn til meirihlutafylgis með þjóðinni. Og valið hinn, sem ekki hefur nokkurn stuðning út fyrir þrengsta hring þeirra, er setja flokkstryggð ofar öllu öðru.

Í könnuninni örlaði á þeirri skoðun, að Gunnar hafi “komið aftan að flokknum og svikið hann” og að það sé “ekki fallega gert af Gunnari”. En ummæli af þessu tagi voru alveg einangruð fyrirbæri. Margfalt algengara var, að hinir spurðu litu á Gunnar sem mikilmenni:

“Gott framtak hjá Gunnari”. “Gunnar hefur sýnt forystuhæfileika”. “Gunnar sýndi kjark”. “Gunnar hefur sannað, að hann er mikilmenni”. “Gunnar er miklu hæfari stjórnmálamaður á allan hátt og hann gerði rétt að rífa sig lausan úr flokksböndunum”. Í þessum dúr var fjöldi svara.

Hins vegar er þetta dæmigert svar um Geir: “Það var ekkert annað en slys, þegar Geir Hallgrímsson varð formaður flokksins. Það er að verða stórslys, að hann skuli ekki geta talað við aðra flokksmenn en einhverja klíku, sem er einangruð frá hinum almenna kjósanda”.

Margir hinna spurðu í könnuninni lögðu til, að Sjálfstæðisflokkurinn lærði eitthvað af slysi sínu: “Styð Gunnar af alefli sem sjálfstæðismaður og vonast til, að þetta verði til að hrista upp í flokknum, honum til góðs”. Samt berja þingflokkur, miðstjórn og flokksráð höfði við stein.

Marklaust væri að vefengja skoðanakönnun Dagblaðsins. Efasemdarmenn ættu fremur að fá flokkinn til að kanna hugi sjálfstæðismanna, heldur en að stirðna í biti hins súra eplis Geirs Hallgrímssonar. Skoðanakannanir er þekking, sem taka verður mark á, eins og annarri þekkingu.

Trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins naga sig sumir í handarbökin um þessar mundir. Þeir eru að sjá hlutdeild sína í ábyrgðinni á smækkun og einangrun flokksins á eins konar Geirfuglaskeri. Jafnframt sjá þeir, að hinn svonefndi “svikari” er sá, sem kosningavélin þarf á að halda.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið