Skipt um hlutverk.

Greinar

Hlegið var um allt land þegar Ragnar Arnalds kom með alvarleg augu á skjáinn og tilkynnti, að enginn grundvöllur væri til grunnkaupshækkana á þessu ári. Kenningin um samningana í gildi hvarf eins og dögg fyrir einum stjórnarskiptum.

Menn hlógu ekki að því, að fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins hefði sagt einhverja vitleysu. Hann var bara að lýsa þeirri einföldu og óumflýjanlegu staðreynd, að stöðnun þjóðarhags hlýtur að endurspeglast í stöðnun lífskjara.

Menn hlógu að nýrri staðfestingu þess, að hinn pólitíski farsi sé alltaf hinn sami, hvort sem ríkisstjórnir eru kenndar við vinstri eða hægri eða eitthvað annað. Reynsla okkar á síðasta áratug er, að þessar stjórnir séu allar eins.

Farsinn felst m.a. í því, að heilir flokkar kúvenda við stjórnarskipti. Nú ætlar Alþýðubandalagið að reyna að verða ábyrgur flokkur. Og Sjálfstæðisflokkurinn hyggur á harða andstöðu gegn málefnasamningi, sem er fremur hægrisinnaður.

Mjög gaman verður að fylgjast með ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins, yfirboðum hans í útgjöldum og hvatningum Morgunblaðsins til ófriðar í atvinnulífi, allt frá loðnuskipstjórum til opinberra starfsmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við hlutverki Alþýðubandalagsins, sem nú þarf á því að halda, að almenningur skipti um þá skoðun, að það sé ábyrgðarlaus flokkur í eðli sínu. Aðhaldsprédikun Ragnars Arnalds er liður í því.

Dálítið er broslegt að það skuli einmitt vera alþýðubandalagsmaður, sem hefur fengið það hlutverk að sitja á kassanum og hindra hina ráðherrana í að láta greipar sópa. Kannski verður það til að breyta áliti manna á Alþýðubandalaginu.

Auðvitað eru þó alvarleg augu á skjánum álíka lítils virði og frómar yfirlýsingar í málefnasamningi um aðhald í ríkisfjármálum, seðlaprentun og skuldasöfnun. Það, sem gildir, eru hinar áþreifanlegu gerðir ríkisstjórnarinnar.

Hún fær á næstunni næg tækifæri til að sýna þjóðinni, hversu föstum tökum hún hyggst taka þetta aðhald. Hún fær ýmis tækifæri til að spara og draga úr spennu af opinberri hálfu. Nefna má nokkur dæmi af handahófi.

Hún getur sparað þjóðinni laun kommissara Framkvæmdastofnunar og efnt þannig gamalkunnugt og margsvikið kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Þar með gæti hún líka grafið undan grófustu fjármálaspillingu íslenzkra stjórnmála.

Hún getur neitað sér um aðstoðarráðherra og þar með lækkað ráðherrakostnaðinn frá því, sem var í fyrra. Þá voru ráðherrar níu og aðstoðarmenn fimm eða samtals fjórtán hátekjumenn. Nú eru ráðherrarnir tíu og ættu að standast freistingar.

Hún getur neitað sér um að græða á yfirvofandi hækkun á bensíni og öðru eldsneyti. Hún getur hætt að nota prósentuálagningu og farið að miða við krónutölu. Enda er alveg út í hött, að ríkissjóður lifi á atburðum úti í heimi.

Undir lok síðustu vinstri stjórnar voru allir ráðherrarnir, nema þáverandi fjármálaráðherra, komnir með samvizkubit út af ofsagróða ríkisins af erlendum olíuhækkunum. Þeir viðurkenndu opinberlega, að prósentustefnan hefði gengið sér til húðar.

Þá barði Tómas Árnason okrið í gegn. Nú er aftur á móti Ragnar Arnalds orðinn fjármálaráðherra og ætlar að sýna okkur, hvort eitthvað sé að marka talið um aðhald eða hvort farsi íslenzkra stjórnmála sé alltaf eins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið