Að gefa brú og bát.

Greinar

Fjármálamunur Íslands og nágrannalandanna beggja vegna Atlantshafsins er einkum sá, að hér er arðvænlegra að hagnast á verðbólgu en arðbærum framkvæmdum. Þess vegna er meiri sókn í lánsfé hér á landi en í nágrannalöndunum.

Þegar lán er að hluta til gjöf, er búinn til jarðvegur spillingar í fjármálum. Íslenzku stjórnmálaflokkarnir hafa sérhæft sig í þessari spillingu. Þeir hafa komið umboðsmönnum sínum fyrir í öllum lánastofnunum þjóðarinnar.

Einmitt vegna þessa geta stjórnmálamenn Íslands ekki náð tökum á verðbólgunni. Hún er undirstaða valds stjórnmálamanna og efnahags gæðinga þeirra. Satt að segja snúast íslenzk stjórnmál að verulegu leyti um viðhald verðbólgu.

Samt er Lúðvík Jósepsson líklega eini stjórnmálamaðurinn, sem viðurkennir þetta opinberlega og berst fyrir meiri verðbólgu, það er að segja lægri vöxtum. Nærri allir aðrir segja, að verðtryggja þurfi sparifé.

Nýja ríkisstjórnin hefur fulla verðtryggingu á stefnuskrá. Vinstri stjórnin í fyrra sagðist stefna að sama marki. Sama er að segja um hægri stjórnina þar á undan. Þessi þykjusta hefur verið föst stefna í nokkra áratugi.

Auðvitað meina þeir ekki neitt með þessu. Síðustu árin hefur verðtrygging verið fjarlægari en nokkru sinni fyrr. Jafnframt hafa stjórnmálaflokkarnir hert tök sin á fjármagni þjóðarinnar. Framkvæmdastofnunin er þar stærsta skrefið.

Málum er hagað þannig, að mjög lítið eigið fé myndast í atvinnulífinu. Það er því í vaxandi mæli komið upp á fyrirgreiðslur lánastofnana, sem blanda saman faglegum arðsemissjónarmiðum og pólitískum gæðingasjónarmiðum.

Með Framkvæmdastofnuninni hefur stjórnmálamönnum tekizt að búa til gífurlega öflugan banka á grundvelli svokallaðra “félagslegra” sjónarmiða samhliða arðsemissjónarmiðum. Þar með er orðið auðveldara en áður að mata gæðingana.

Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera á móti hinu pólitíska kommissarakerfi Framkvæmdastofnunar. En það er bara ekkert að marka þá stefnu. Strax og flokkurinn fékk tækifærið, kom hann sínum manni í kommissarastöðu, auðvitað alþingismanni.

Sverrir Hermannsson varð í síðustu kosningabaráttu alræmdur fyrir að segja Austfirðingum bæði opinskátt og undir rós, að þeir mættu gjarnan muna sér margvíslegar framfarir í fjórðungnum, sem stofnunin hefur stuðlað að.

Hugmyndin er sú, að Austfirðingar verði að halda áfram að kjósa Sverri á þing, svo að þeir geti haldið áfram að fá vegi og brýr, verksmiðjur og bryggjur, báta og orkuver. Sverrir og hinn “félagslegi” banki eru runnir saman í eitt.

Þar með er spillingin í samruna stjórnmála og fjármála komin á svo geigvænlegt stig að sjálft lýðræðið er í hættu. Annað hvort heldur þjóðskipulagið áfram út í mafíufenið, eða þá að hinir betri stjórnmálamenn fara að stinga við fótum.

Afnám verðbólgu og björgun lýðræðis er hvort tveggja háð þeirri forsendu, að skilið verði á milli stjórnmálavalds og fjármálavalds. Fyrsta skrefið á þeirri braut er afnám kommissara Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Sérhver ný ríkisstjórn hefur tækifæri til að velta þessum bautasteini íslenzkrar spillingar. Nú hefur ný ríkisstjórn tækifæri til að losa Framkvæmdastofnunina við Sverri Hermannsson og það án þess að ráða henni nýja kommissara.

Krafan um þetta er ófrávíkjanleg.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið