Benzínfreistingar.

Greinar

Þegar bensínverð ætti að hækka hér á landi um 100 krónur vegna erlendra hækkana, hækkar það í rauninni um 220 krónur. Það stafar af því, að ríkissjóður hefur gert olíukreppuna að einni helztu gróðalind sinni í skattamálum.

Álögur hins opinbera á bensín eru reiknaðar í prósentum. Í hvert sinn, sem hin alþjóðlega verðbólga er mögnuð með hækkun á bensíni, magnar ríkissjóður hina innlendu verðbólgu tvöfalt hraðar með prósentukerfi sínu.

Í fyrra rak vinstri stjórnin þessa stefnu gegndarlaust, jafnvel þótt bensínmarkaðurinn í Rotterdam væri kominn úr skorðum. Hún notaði Rotterdam til að fylla í ríkiskassanum ýmis göt, sem ekki komu samgöngum neitt við.

Þegar ríkissjóður leggur 120 krónur ofan á 100 króna bensínhækkun, renna aðeins tæpar 40 krónur hækkunarinnar í vegasjóð. Hinar rúmu 80 krónurnar fara í að greiða kostnað ríkisins við að lifa um efni fram.

Í júlí í fyrra var svo komið, að jafnvel ráðherrarnir voru komnir með samvizkubit. Þeir létu, aðrir en fjármálaráðherra, hafa eftir sér, að nú væri mál að linnti. Ríkissjóður mætti ekki lengur halda fullri prósentuálagningu.

Það fór þó svo, að fjármálaráðherra hafði sitt fram. Hann gat líka bent á, að samvizkubit út af bensíni væri lítils virði, þegar hinir sömu ráðherrar hefðu með öðrum ráðum framleitt þann halla á ríkissjóði, sem bensínið þyrfti að laga.

Nú er enn búizt við hækkun á bensíni. Hin nýja ríkisstjórn á þá tækifæri til að verða fyrsta ríkisstjórnin til að neita ríkissjóði um fullar prósentur af hækkuninni og leyfa til dæmis aðeins sem svarar hlut vegasjóðs.

Slíkt væri dæmi um, að aukið aðhald í ríkisbúskap væri raunveruleiki og ekki óskhyggja. Slíkt væri líka mikilvægt skref í þá átt, að mesti verðbólguvaldur Íslands, ríkisvaldið, tæki forustu í hina áttina, til verðhjöðnunar.

Það er í mörgum atriðum sem þessum, að orð á blaði málefnasamnings mæta dómi reynslunnar og standast hann eða standast ekki.

Áhrifalaust blað.

Morgunblaðið hefur í nærri þrjár vikur hamast á Gunnari Thoroddsen með nokkurri aðstoð Vísis. Gunnari hafa verið valin hin verstu orð. Hver sótraftur hefur þar verið á sjó dreginn. Þetta efni hefur tröllriðið blaðinu dag eftir dag.

Morgunblaðið reyndi jafnvel að gefa í skyn, að ríkisstjórn Gunnars væri mynduð í höfuðstöðvum kommúnismans á Íslandi. Þegar lesendur skildu ekki ópin um Rúbluna, fór blaðið að tala um hægri stjórn Gunnars sem vinstri stjórn.

Þessi æðibunugangur hefur ekki haft hin minnstu áhrif. Gunnar Thoroddsen nýtur stuðnings þjóðarinnar, þar á meðal alls þorra sjálfstæðismanna og óháðra kjósenda. Þetta kom í ljós í skoðanakönnun Dagblaðsins, sem birt var á mánudaginn.

Árangursleysi herferðar Morgunblaðsins gegn Gunnari Thoroddsen er átakanlegt dæmi um, að þetta gamalgróna blað er orðið gersamlega áhrifalaust í stjórnmálum. Það er utan gátta og lifir í gömlum heimi, þar sem orð Morgunblaðsins voru lög.

Fjölmiðlun á Íslandi er nú orðin svo fjölbreytt, að enginn einn aðili getur stjórnað almenningsálitinu, allra sízt Morgunblaðið. Þessi staðreynd hefur bara ekki komizt inn í höfuð flokkseigendafélagsins í kringum Morgunblaðið.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið