Borg

Veitingar

Vafasamt er að tala um Hótel Borg sem veitingahús. Ég þekki engan, sem hefur farið þangað til þess eins að borða. Menn fara þangað í hádeginu, ef þeir eru í Borgarklúbbnum, og á kvöldin, ef þeir eru hótelgestir í föstu eða lausu fæði.

Mikið óskaplega hefur Borg verið glæsilegt hótel, þegar það var reist fyrir hálfri öld. Enn eimir eftir af þessum glæsibrag í veitingasal hússins, sem er í hefðbundnum, evrópskum hótelstíl millistríðsáranna.

Húsbúnaður og innréttingar bera ekki merki þreytu. Viðhald og endurnýjun hefur verið með sóma. Ekki verður þó sagt, að stíllinn sé smekklegur. En hann er ósköp notalegur, góðborgaralegur og umfram allt streitulaus.

Á Borg er reynt að skilja milli borða með blómum. Það er góð hugmynd, betri en grindverk eða hálfir veggir. En gróðurinn í kerjunum er of gisinn og rytjulegur. Kannski hella gestir brennivíni á blómin.

Kjaftamiðstöð þjóðmálanna

Í rauninni er þetta karlaklúbbur fremur en veitingasalur. Þarna hittast fastmótaðir hópar í morgunkaffi, hádegismat eða síðdegiskaffi. Menn eiga þar sína föstu stóla við ákveðin borð. Þeir mundu fá hjartaslag, ef köttur settist í ból bjarnar.

Þetta er ekki staður viðskiptasamninga eins og Holt og Naust. Borgin er hinn rólegi samkomustaður góðborgara, sem eru komnir yfir það að gera viðskipti – eru komnir á leiðarenda í árangursríku starfi og geta slakað á.

Þessu fylgir, að Borgin er kjaftamiðstöð þjóðmálanna. Saumaklúbbsstemningin er áberandi í hádeginu, þegar menn rölta milli borða, staldra við í tvær mínútur og skiptast á sögum um gang opinberra og persónulegra mála landsins.

Borgin er raunar engu lík. Það er kannski út í hött að tala um hana í greinaröð um veitingahús. Borgarklúbbsmenn hafa ekki áhuga á mat og mundu sennilega ganga á dyr, ef matargerðarlist læddist inn í eldhúsið.

Lífið á Borginni fjarar út eftir síðdegiskaffið. Í kvöldmatnum hímir kannski svo sem hálfur annar þingmaður af landsbyggðinni og hálfur annar útgerðarstjóri í bankaleiðangri til höfuðborgarinnar.

Hættulegur fastaseðill

Matseðillinn á Borg tekur ekki hið minnsta tillit til sérstöðu hússins sem klúbbs. Hann gefur ranglega í skyn, að allt sé á fullu í eldhúsinu fyrir stöðugan straum alþjóðlegra gesta, – sem búa raunar og borða annars staðar.

Heilir 38 réttir eru á matseðlinum, fleiri en í Blómsal Hótels Loftleiða. Seðill þessi er eins og efnisyfirlit kennslubókar í hefðbundinni hótelmatreiðslu. En enginn pantar mat eftir honum og enginn ætti að gera það.

Sem dæmi um forneskju matseðils Borgar má nefna fyrirlitningu hans á fiski. Seðillinn gefur í skyn, að eldhúsið greini á milli grísa, nauta og lamba, en ekki á milli ýsu, lúðu og karfa. Fiskur er bara “fiskur” á matseðlinum.

Skynsamlegri er matseðill dagsins, sem er ítarlegri en gengur og gerist á íslenzkum hótelum. Þar er boðið upp á þríréttaðan málsverð fyrir 7.200 krónur, nautasteik fyrir um það bil 9.000 krónur, fiskrétt fyrir um 3.600 krónur og sitthvað fleira, svo og kalt borð í hádeginu á 6.200 krónur.

Matseðill dagsins er raunar alls ráðandi á Borg. Fastaseðillinn er ekki einu sinni dreginn upp í hádeginu, enda mundu Borgarklúbbsmenn þá sennilega grýta honum í höfuð þjónsins. Á kvöldin liggur hann hins vegar á glámbekk.

Vikan prófaði matreiðslu Borgar bæði í hádegi og að kvöldi. Í bæði skiptin var þjónustan kurteis og fagmennskuleg, en áhugalítil. Hún stóðst ekki samjöfnuð við Naust, -hvað þá Sögu.

Vín
Vínlistinn á Borg er mjög lélegur og bendir til dapurlegs smekks matargesta. Þó er hægt að fá þar hvítvínið Chablis á 4.675 krónur og rauðvínin Chianti Classico á 3.340 krónur og Chateauneuf-du-Pape á 5.680 krónur.

Lambageiri
Lambageiri, steiktur á spjóti að hætti Borgar, var þungamiðjan í þrírétta framboði seðils dagsins í hádeginu, þegar Vikan kom í heimsókn. Í þessum rétti voru ágætar, hvítar og hnöttóttar, litlar kartöflur, mátulega soðnar.
Ég missti samt matarlystina við að sjá tróna á diskinum hlemmistóra og eldrauða papriku úr niðursuðudós. Þessi hrikalega skella ofbauð bæði matarskyni mínu og fegurðarskyni. Kokkinum gat ekki verið sjálfrátt.
Á diskinum var einnig dálítið af gulrótum úr dós, svo og mjög þurrt beikon, sem var vafið utan um lambakjötið. Beikonið yfirgnæfði lambakjötið, svo sem oft vill verða við slíkar tilfæringar.
Beikonbragðið var ekki gott og lambakjötsbragðið fannst alls ekki, enda var kjötið grásteikt og alveg safalaust. Þetta var sannarlega ekki merkilegur matur. Og mundi ég heldur matarlaus vera.
Á undan lambageiranum var svokölluð blómkálssúpa, hlutlaus og áreitnislaus kremsúpa úr dós. Á eftir var rommrúsínu-ís án rommbragðs, en með möndlum í. Þetta var semsagt meinlaus ís.
Verðið á þessum þriggja rétta mat er 7.200 krónur.

Buffsteik
Frönsk buffsteik var það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með samkvæmt því sem stóð á seðli dagsins. Þar voru aftur á ferðinni kartöflurnar góðu. Og nautakjötið var sæmilegt, hæfilega meyrt.
Kjötið drukknaði hins vegar í gífurlegu magni bráðins steinseljusmjörs, sem spillti nokkuð fyrir ánægjunni. Sama er að segja um grænar baunir og gulrætur, hvort tveggja úr dós. Þegar meðlætið hafði verið lagt til hliðar, varð kjötið frambærilegt.
Verðið er 8.900 krónur.

Graflax
Dillkryddaður lax með sinnepssósu var á fastaseðlinum og freistaði Vikunnar í kvöldheimsókninni. Vonirnar jukust enn, þegar laxinn kom á borðið, ákaflega fallega upp settur á fati. Með laxinum fylgdi mild og þægileg, ljós sinnepssósa.
Hárin risu hins vegar á höfði mér, þegar ég bragðaði laxinn. Eitthvað hafði komið fyrir fiskinn, síðan hann var kryddleginn. Hann minnti ekki í bragði á graflax, heldur hafði hann dauft og torkennilegt geymslubragð.
Líkelga er graflax pantaður einu sinni eða tvisvar á vetri á Borg.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Hálfir humarhalar í skel, glóðarsteiktir, voru líka snyrtilega fram bornir. Humarinn var heitur og mjög stór, sá stærsti, sem ég hef séð á veitingahúsi í vetur. Annan kost hafði hann ekki.
Humarinn var orðinn grár og sumpart brúnn af elli. Hann var næstum alveg bragðlaus.
Ég varð dálítið hræddur við að fá þetta ómeti ofan í vondan laxinn, því að ég þurfti síðar um kvöldið að fara í beina sjónvarpssendingu. Ég óttaðist, að í miðri umræðu um virðingu alþingis yrði ég að hlaupa fram á afvikinn stað.
Svo fór þó, að ég kenndi mér einskis meins. En líklega verð ég að fara að krefja Vikuna um áhættuþóknun, ef ég á að stíga öllu fleiri skref niður eftir matarmenningu íslenzkra veitingahúsa.
Ekkert sítrónuvatn fylgdi humrinum til að hreinsa fituga fingur. Bendir það til þess, að sjálfsvirðing Borgar sé minni en annarra veitingasala í sama verðflokki.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur og 11.000 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Nautalundir Berry voru það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með á matseðli dagsins þetta kvöldið. Þá kom í ljós, að það var bara misskilningur minn að panta graflax og humar eða yfirleitt nokkurt atriði af fastaseðlinum. Menn eiga eingöngu að halda sér við dagseðilinn.
Þetta var prýðilegur turnbauti. Ég hætti alveg að bölva matreiðslumönnunum. Bautinn var mjög meyr og óvenjulega bragðmikill, enda var gerð kjötsins með grófasta móti.
Hér voru aftur á ferðinni litlu, góðu kartöflurnar og enn einu sinni mátulega lítið soðnar. Í þetta sinn höfðu þær verið smjörsteiktar eftir suðu.
Sveppirnir voru því miður úr dós, en þeim hafði þó ekki verið misþyrmt enn frekar með of langri steikingu. Ennfremur var þarna meiri dósamatur, maís, grænar baunir og gulrætur, einkennistákn íslenzkrar matargerðar. Ojbjakk.
Ég kunni betur við mátulega soðið og sítrónuvætt brokkálið. Sömuleiðis ostað blómkálið. En magnið af öllu þessi meðlæti var eins og fyrir heilan herflokk.
Steinseljusmjörið var líka gott, en óhóflega mikið. Það á ekki að bjóða gesti upp á rúmlega hundrað grömm af smjöri í meðlæti með kjöti. Hann gæti fallið fyrir freistingunni. Þjóðin er löngu hætt að svelta.
Verðið er 9.300 krónur.

Ýsa
Steikt fiskflök Doria voru á seðli dagsins. Þetta var smjörsteikt ýsa, sennilega úr frystihólfi, en eigi að síður bragðgóð. Hún hafði ekki gleymst á pönnunni, eins og oft vill verða hér á landi.
Enn komu í ljós margumtalaðar kartöflur, einnig ferskar, smjörsteiktar gúrkur, nýir tómatar, salatblöð og sítrónur. Hvílíkur léttir eftir allt dósagrænmetið!
Verðið er 3.700 krónur.

Melóna
Kældar melónur með sykri sjást ekki oft á íslenzkum matseðlum. Þær fást þó merkilegt nokk á Borg, prýðilegur eftirréttur, sem fer vel í maga.
Verðið er 1.700 krónur.

Ostabakki
Blandaðir ostar á bakka með brauði og smjöri reyndist vera einn skrautlegasti ostabakki, sem ég hef séð borinn fram fyrir einn mann. Þar var úr nógu að velja, þótt smurostarnir fjórir freistuðu mín ekki.
Þarna gaf að líta gráðaost, gouda- og mysuost, rúgbrauð, hrökkbrauð og ritzkex, smjör, vínber og mandarínur. Þetta var heilt veizluborð, þótt eftirréttur væri.
Ég átel þó, að boðið sé upp á mandarínur úr dós, þegar ferskar mandarínur hafa fengizt í búðum á hverjum einasta degi um margra mánaða skeið.
Verðið er hátt, 4.000 krónur sem eftirréttur.

Kaffi
Kafið á Borg reyndist vera sæmilegt og borið fram með ósviknum rjóma. Hins vegar var írska kaffið nauðaómerkilegt, hálfkalt og illa útlítandi eftir hristing á ferð þess úr eldhúsi inn á borð.

Skýjaverð

Borgin er mjög dýr veitingastofa miðað við gæði. Hún er í sama verðflokki og Holt og Saga, þótt gæðin séu mun síðri.

Að vísu er hægt að fá á Borg þríréttaðan mat fyrir 7.200 krónur af seðli dagsins, en slíkur matur kostar þó ekki nema 5.000-7.600 krónur á Loftleiðum. Með kaffi og hálfri flösku af Chianti Classico á mann mundi þessi matur kosta 9.500 krónur á Borginni.

Meðalverð átján forrétta, súpa og smárétta á Borg er 3.700 krónur, ellefu aðalrétta úr kjöti og fiski 7.700 krónur og níu eftirrétta 2.400 krónur. Samtals eru þetta 13.800 krónur. Með kaffi og hálfri flösku af víni ætti meðalmáltíð af fastaseðli Borgar að kosta 16.100 krónur.

Slík máltíð kostar 16.300 krónur á Sögu, 15.700 krónur á Loftleiðum, 15.100 krónur í Holti og 14.500 krónur í Nausti.

Mismunur rétta á Borg reyndist vera svo mikill, að tæplega er hægt að gefa matreiðslunni einkunn. Að fara meðalveginn og gefa þrjá segir ekki alla söguna, því að gestir geta með lagi komist yfir mat með betri einkunn.

Samt veða þrír að duga í einkunn fyrir mat, því að Borgin fær núll fyrir þann þátt að vara gesti ekki við humri og laxi. Þjónustan á Borg fær sex í einkunn, vínlistinn þrjá og umhverfi og andrúmsloft fá sjö í einkunn. Heildareinkunn Borgar sem veitingahúss er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan