Jan Mayen er íslenzk

Greinar

Jan Mayen er íslenzk eyja á íslenzka landgrunninu og á íslenzku hafsvæði. Jan Mayen hefur verið íslenzk, síðan Íslendingar fundu hana árið 1194 og nefndu Svalbarð. Um þetta er fjallað í Landnámabók og fleiri fornum heimildum.

Nær allar götur síðan höfðu Íslendingar einir öll gögn og gæði af eyjunni, ef frá er skilið skammvinnt tímabil hollenzkra hvalfangara, sem gáfu henni nafnið Jan Mayen. Það var rekaviður, sem Íslendingar sóttu norður þangað.

Það er út í hött, að norskur sérvitringur að nafni Birger Jacobsen hafi eignazt Jan Mayen árið 1921, þótt hann hafi haft þar viðkomu. Ekki var þá lengra síðan en 1918, að íslenzkir rekaviðarmenn voru á eyjunni.

Hæstiréttur Noregs hefur enga lögsögu yfir íslenzku landi. Því er markleysa ein sá úrskurður réttarins frá 1933, að Birger Jacobsen ætti Jan Mayen. Jafn mikil markleysa felst í kaupum Noregs á eyjunni af erfingjum Jacobsens árið 1952.

Á millistríðsárunum réð útþenslustefna ríkjum hjá norskum stjórnvöldum. Þau gerðu meira að segja kröfu til hálfs Grænlands. Danir gátu hnekkt þeirri kröfu fyrir alþjóðadómstólnum í Haag árið 1933. Og Íslendingar reyndu líka að verjast.

Árin 1924 og 1927 sendu forsætisráðherrarnir Jón Magnússon og Jón Þorláksson bréf til dönsku krúnunnar um hagsmuni Íslands á Jan Mayen og við Jan Mayen. Áskilja þeir þar Íslendingum jafnan rétt til allra gagna og gæða á sjó og landi.

Danska krúnan gætti hins vegar ekki eins vel hagsnuna Íslands við Jan Mayen og sinna eigin hagsmuna við Grænland. Norska stjórnin náði því smám saman tökum á eyjunni á tímanum frá 1924, þegar fyrsta veðurstofan var reist, til 1929, þegar eyjan var formlega innlimuð.

Norska stjórnin tók Jan Mayen af okkur, af því að okkur skorti bolmagn til gagnaðgerða og af því að við vorum ekki sjálfum okkur ráðandi í samskiptum við erlend ríki. Landvinningurinn á Jan Mayen er á ábyrgð norskra og danskra stjórnvalda.

Hinu er því miður ekki að leyna, að islenzk stjórnvöld hafa ekki staðið sig nógu vel eftir daga Jóns Magnússonar og Jóns Þorlákssonar. Það er eins og þau hafi beygt sig fyrir orðnum hlut í útþenslustefnu norskra stjórnvalda.

Íslenzk stjórnvöld mótmæltu ekki einu sinni, þegar þau höfðu gott tækifæri eftir stríð. Þá sneri Atlantshafsbandalagið sér til Noregs, en ekki til Íslands, til að fá reista á sinn kostnað veðurstöð og herstöð á Jan Mayen.

Spurningin er sú, hvort hálfrar aldar undirgefni íslenzkra stjórnvalda nægi til að afsala rúmlega sjö alda yfirráðum Íslands á Jan Mayen. Þetta gætí hugsanlega verið verkefni fyrir alþjóðadómstólinn í Haag.

Því miður hefur dómstóllinn haft tilhneigingu til að styðja heimsvaldasinna, viðurkenna hefð ítaka, sem náðst hafa með yfirgangi eða ofbeldi. Þannig studdi dómstóllinn ítök, sem Bretar höfðu aflað sér á Íslandsmiðum.

Samt er sjálfsagt fyrir ríkisstjórn okkar að kanna ofan í kjölinn möguleika okkar á sviði eignarhalds á Jan Mayen, um leið og hún heldur fast fram öðrum þjóðréttarkröfum okkar á sviði hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Norsk stjórnvöld hafa að undanförnu lagt áherzlu á vorkunnsemi i garð Íslendinga í Jan Mayen málinu . En það er auðvelt fyrir hinn volduga að gaspra um frændsemi, þegar hann er búinn að skapa yfirgangi sínum meinta hefð.

Jan Mayen er íslenzk, en ekki norsk.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið