Hugmyndir norskra stjórnvalda um 200 mílna efnahagslögsögu kringum Jan Mayen eru út í hött. Smáeyja, sem frá ómunatíð hefur hvorki haft innfædda íbúa né sérstakt efnahagslíf, getur ekki skert rétt þjóðríkja í nágrenninu.
Þetta lögmál gildir, hvort sem menn telja Jan Mayen íslenzka eyju eða norska. Réttur, tengdur eignarhaldi á þessari eyju, getur ekki skert mikilvægari rétt strandríkjanna umhverfis, Noregs, Íslands og Grænlands.
Í leiðara Dagblaðsins í gær voru rifjuð upp nokkur hin sögulegu rök þess, að Jan Mayen væri íslenzk eyja. Í rúmar sjö aldir voru það Íslendingar, en ekki Norðmenn, sem heimsóttu eyjuna og drógu þaðan björg í bú.
Aðeins síðustu hálfa öldina hafa Norðmenn haft ítök á Jan Mayen. Á þriðja áratugnum lét danska krúnan undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna Ítslendinga, þrátt fyrir yfirlýsingar tveggja forsætisráðherra Íslands.
Ítök Íslendinga hafa þó haldizt, því að þeir hafa umfram aðra nýtt fiskistofna við Jan Mayen. Þar sást tæpast norskt fiskiskip fyrr en í fyrra. Ísland hefur því haldið efnahagshefð sinni við Jan Mayen allt fram á þennan dag.
Slík efnahagshefð er raunar meira virði en skrípaleikur viðurkenningar hæstaréttar Noregs árið 1933 á eignarhaldi Birgis Jacobsen og kaupa norska ríkisins árið 1952 á eynni af erfingjum hans. Birgir átti ekkert í Jan Mayen.
Verið getur, að alþjóðadómstóllinn í Haag mundi telja hefð komna á útþenslu Noregs inn í íslenzkt efnahagssvæði. Dómstóllinn hefur fengið orð fyrir að vera hallur undir nýlendustefnu, ef hún hefur náð að festa sig í Ísessi.
Jón Magnússon forsætisráðherra áskildi þó árið 1924 Íslendingum jafnan rétt á Jan Mayen við hverja aðra. Og árið 1927 tilkynnti Jón Þorláksson forsætisráðherra, að Jan Mayen væri á íslenzku hafsvæði og tengdist íslenzkum efnahagsmunum.
Slíkar yfirlýsingar kunna að vera lítils virði, þegar menn standa andspænis vel heppnaðri útþenslustefnu Noregs. Fráleitt væri þó annað en að láta reyna á gildi þeirra, sem og alla átta alda sögu afskipta Íslendinga af Jan Mayen.
Færi svo, að eignarhald Íslands yrði viðurkennt, mundi það hvorki skerða efnahagslögsögu né hafsbotnsréttindi Noregs né Grænlands. Aðeins útþenslusinnuðum Norðmönnum dettur í hug, að slíka frekju megi byggja á Jan Mayen.
Öll þessi strandríki, Noregur, Ísland og Grænland hafa rétt til óskertrar 200 mílna efnahagslögsögu í átt til Jan Mayen, óháð því, hver telst eiga eyjuna. Og sú lögsaga, sem þá er eftir við Jan Mayen, á að vera íslenzk.
Sú skoðun byggist ekki aðeins á fornum landafundum eða formlegu eignarhaldi, heldur fyrst og fremst á þeirri staðreynd, að það eru Íslendingar, sem frá ómunatíð hafa nýtt haf og land við Jan Mayen. Átta alda hefð er löng.
Ekki er síður ljóst, að Ísland á allan hafsbotninn umhverfiSs Jan Mayen. Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna er í stórum dráttum sammála um, að botnsréttindi strandríkja nái að 360 mílum út eftir landgrunni og landsökkli þeirra.
Jan Mayen er á landgrunni Íslands, næsta nágranna sínðs. Hún er eldfjallsey á Mið-Atlantshafshryggnum. Mikið hafdýpi skilur hana bæði frá Noregi og Grænlandi. Hún situr á landfræðilegum hluta Íslands, að skilningi hafréttarráðstefnunnar.
Vegna alls þessa er Jan Mayen íslenzk eyja.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið