Þeir tala og við hlustum.

Greinar

Vandi Ingvars Gíslasonar menntamálaráðherra í norræna sjónvarpsþættinum á þriðjudaginn endurspeglar vanda Íslendinga almennt í norrænni samvinnu og á ekkert skylt við meinta ást Íslendinga á engilsaxnesku máli og menningu.

Ingvar sagði fátt í þættinum og sagði það hægt. Hann lagði lítið til málanna annað en að taka undir sjónarmið hinna. Hann varð utanveltu í umræðunum, beinlínis af því að hann varð að tala annað mál en móðurmálið.

Í norrænu samstarfi hafa Danir, Norðmenn og Svíar orðið. Þeir tala sitt móðurmál og tala það hratt. Smám saman fer umræðan framhjá Íslendingum og mörgum Finnum, sem ekki eru jafn flugfærir í skandinavísku og móðurmálinu.

Við slíkar aðstæður hefur komið fyrir, að Íslendingar og Finnar hafi óskað eftir, að enska yrði notuð í stað skandinavisku. Með þessu eru þeir aðeins að biðja um að geta tekið þátt í norrænum umræðum á jafnréttisgrundvelli.

Þegar enska er notuð í norrænum umræðum, verða allir að tala hægt, líka Danir, Norðmenn og Svíar. Þannig kemur hraði umræðunnar í þann farveg, að Finnar og Íslendingar geta tekið þátt án minnimáttarkenndar.

Enska er nokkurn veginn hlutlaust mál á Norðurlöndunum. Þar með er ekki sagt, að hún sé hlutlaus í evrópsku eða víðtækara samhengi. Það er einmitt oft áberandi, hvernig enskumælandi menn ráða ferðinni í alþjóðlegum umræðum.

Ef til vill þurfum við á að halda esperanto eða latínu, svo að umræðumenn úr öllum heimshornum hafi jafnrétti á við engilsaxa í alþjóðlegu ráðstefnulífi. En á Norðurlöndum út af fyrir sig getur enskan dugað.

Þegar Danir, Norðmenn og Svíar heyra Íslendinga halda slíkum skoðunum fram, telja sér gjarnan trú um, að við séum að sogast hættulega mikið burt frá norrænni menningu inn í engilsaxneska menningu.

Í umræddum sjónvarpsþætti var greinilegt, að bæði norski og sænski ráðherrann voru úti að aka á þessu sviði. Sá sænski kvartaði um, að hér vildi fólkið á götunni fremur tala við sig ensku en skandinavisku.

Gaman hefði verið, ef Ingvar hefði sagt honum, að fólkið á götunni í Stokkhólmi vildi heldur tala við sig á ensku en íslenzku! Frændur vorir mega nefnilega gæta sín ofurlítið á hinum svonefnda stórskandínavisma.

Norski ráðherrann virtist dauðhræddur um, að íslenzk menning væri að líða undir lok og nefndi það sérstaklega, að Íslendingar væru farnir að tala ensku! Svona er nú þekkingin á Íslandi hjá nágrönnum okkar.

Íslenzk dægurlög í útvarpinu eru þó í minna mæli með enskum textum en hlíðstæð lög nágranna okkar á Norðurlöndum. Við köllum “teve” sjónvarp og “radio” útvarp. Daglegt mál okkar er minna enskuskotið en danska, norska og sænska.

Þegar sænski ráðherrann í sjónvarpinu talar um, að stjórnmálamenn verði að hafa “courage”, talar Ingvar Gíslason um, að þeir verði að hafa hugrekki. Jafnvel árið 1980 varðveitum við okkar mál betur en þeir sitt.

Það setur Íslendinga að óþörfu upp á móti norrænu samstarfi, að ráðamenn menningarmála í nágrannalöndunum skuli vera jafn fullir af fordómum í garð Íslendinga og sjónvarpsþátturinn bar vitni um.

Þessir fordómar eru sumpart afleiðing af einhliða ráðstefnum, þar sem þeir tala og við hlustum.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið