Ísland er oftast hátt skrifað hjá þeim, sem fjalla um ferðir í mikilvægum fjölmiðlum erlendis. Í morgun var listi í New York Times yfir mikilvægustu áfangastaði nýja ársins. Þar er Ísland í fjórða sæti. Sérstaklega er bent á, að gengishrun krónunnar hafi gert þetta áður dýra land mun ódýrara. Nefndir eru hverir, jöklar, eldfjöll og norðurljós. Meginhluti greinarinnar snýst samt um framboð á dægradvöl í Reykjavík: Tónlistarhúsið Hörpu, DesignMarch listhönnunarhátíðina og Airwaves tónlistarhátíðina. Íslenzk menning er orðin aðdráttarafl. Ferðamönnum í Reykjavík mun fjölga í ár.