Meira af sama.

Greinar

Hið nýja fjárlagafrumvarp er afleitt. Samkvæmt því á ríkið að halda forustu sinni í framleiðslu séríslenzkrar verðbólgu. Ríkisgeirinn á áfram að vera rúm 28% af þjóðarkökunni. Hér eru því hrein verðbólgufjárlög á ferð.

Þar með er ekki sagt, að þetta fjárlagafrumvarp sé neitt verra en tvö fyrri frumvörp þessa vetrar eða önnur fjárlagafrumvörp áttunda áratugarins. Það gerir raunar ráð fyrir nákvæmlega sömu grautarstjórn ríkisfjármála og verið hefur.

Fjárlagafrumvarp Ragnars Arnalds gæti alveg eins verið smíðað af Halldóri E. Sigurðssyni, Matthíasi Á. Mathiesen, Tómasi Árnasyni eða Sighvati Björgvinssyni. Satt að segja er það bara frumvarp Tómasar frá í haust, næstum óbreytt.

Hvernig á líka að vera hægt að semja hófsamleg fjárlög, þegar ráðherrar byggja á því trúaratriði, að ríkisrekstur landbúnaðarins skuli vera sjálfvirkur? Hvaða önnur þjóð þykist hafa efni á að gefa landbúnaði tíundu hverja krónu ríkisins?

Samkvæmt frumvarpinu eiga 24,4 milljarðar að fara í niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, 8,15 milljarðar í útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða og 3,25 milljarðar í aðra beina styrki til landbúnaðarins eða samtals tæp 11% fjárlaga.

Eru þá hvorki taldir með þeir 3 milljarðar, sem ríkisstjórnin vill gefa landbúnaðinum út á offramleiðsluna í fyrra, né þeir 6,8 milljarðar, sem landbúnaðarráðherra lofaði búnaðarþingi út á væntanlega offramleiðslu þessa árs.

Fjárlagafrumvarpið er fullt af slíkum trúaratriðum, allt frá 36-43 milljörðum til styrktar landbúnaði niður í 100 milljónir til styrktar hinum fimm flokkspólitísku dagblöðum þessa lands. Þessi trúaratriði rækta verðbólguna.

Í frumvarpinu felst enn einu sinni hin gamalkunna staðreynd, að bráðabirgðaráðstafanir verða varanlegar. Hækkun sölugjalds og vörugjalds frá í fyrra er framlengd í þessu nýja frumvarpi og er þar með orðin að hefð.

Ríkisstjórnin hefði staðið sig vel, ef hún hefði með frumvarpinu reynt að vinda örlítið ofan af ríkisframleiddu verðbólgunni, til dæmis með því að afnema ofangreidda hækkun eða með því að lækka beina skatta í sama mæli.

Ef alþingi vill gegna því hlutverki, sem ríkisstjórnin hefur brugðizt, verður það að skera niður þetta verðbólgufrumvarp. Tíu ára þindarlausri verðbólguforustu ríkisins verður að linna og það gerist aðeins með niðurskurði.

Því miður segir frumvarpið eitt ekki alla söguna um hraðann á ríkisverðbólgunni. Í undirbúningi er orkuskattur, sem mun leiða til hægari þróunar frá olíukyndingu til hitaveitna en ella hefði verið. Heimskan er endalaus.

Þar á ofan hafa þingmenn allra stjórnarflokkanna lagt fram frumvarp um heimild til hækkunar útsvara úr 11% í 12%. Þar með er líklegt, að opinberi geirinn í heild þenjist út, þótt ríkisgeirinn sjálfur standi í stað.

Við vitum ekki enn, hve hár verður hinn óréttláti tekjuskattur samkvæmt hinum nýju skattalögum, því að skattstigar hafa ekki litið dagsins ljós. Þeir, sem ekki geta svikið undan skatti, óttast mjög gróðafíkn stjórnvalda.

Enn má nefna, að ástæða er til að óttast lánsfjáráætlunina, sem er á leiðinni. Hún verður sennilega notuð til að fylla upp í eyður fjárlaga. Alvarlegast er, ef fetuð verður sú óheillabraut að fjármagna landbúnaðarbrjálæðið með lánum.

Verðbólgusagan er því ekki öll sögð með verðbólgufjárlagafrumvarpi.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið