Háll er ísinn orkuskatts.

Greinar

Sumir segja, að mestu máli skipti að jafna húshitunarkostnað á hitaveitusvæðum og olíukyndingarsvæðum. Aðrir segja, að mestu máli skipti að flýta útþenslu hitaveitusvæða og losa sem flesta landsmenn við olíukyndingu.

Þessi tvenns konar viðhorf til olíustyrkja og orkuskatts endurspegla tvenns konar viðhorf til þjóðfélagsmála. Annars vegar eru þeir, sem leggja áherzlu á skiptingu kökunnar. Hins vegar eru þeir, sem leggja áherzlu á stækkun kökunnar.

Núverandi olíustyrkur byggist á þeirri skoðun, að fólk utan hitaveitusvæða búi við óþolandi misrétti. Það sé ósanngjarnt, að þetta fólk þurfi að bera tvöfaldan og jafnvel margfaldan húshitunarkostnað á við hina lánsömu.

Þetta tengist hinni ríkjandi byggðastefnu í þjóðfélaginu. Því er haldið fram með réttu, að verðmunur jarðhita og olíu leiði til byggðaröskunar í landinu. Misréttið valdi flótta fólks af olíukyndingarsvæðum dreifbýlisins.

Hástigi nær þessi einfeldningslegi góðvilji hjá þeim ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar, sem vilja nú koma á orkuskatti, er dreifi peningum frá hitaveitufólki til olíukyndingarfólks, svo að úr verði félagsleg jafnstaða á þessu sviði.

Því miður leiðir þessi góðviljaða hugsun til mun hægari stækkunar kökunnar en ella hefði verið. Hún jafnar stöðu þjóðarinnar í átt til fátæktar, en ekki til ríkidæmis. Hún gleymir mikilvægi þess, að kakan sé stækkuð.

Því meira sem jafnað er milli jarðhita og olíu, þeim mun meira dregur úr áhuga sveitarfélaga á dýrum átökum í hitaveitumálum. Af hverju skyldu þau leggja út í slík ævintýri, ef íbúarnir hagnast ekki á því?

Þeir, sem harðastir eru á hinum vængnum, segja, að skynsamlegra væri að skattleggja olíukyndingu til að fjármagna nýjar hitaveitur. Þeir vísa til hins háa bensínverðs, sem miðar að því að minnka notkun á dýrum og takmörkuðum orkugjafa.

Ef olíukynding yrði skattlögð með þessum hætti, mundu sveitarfélög um allt land standa andspænis þeirri kröfu íbúanna, að jarðhitaveitum yrði komið upp hið bráðasta. Hinn ódýri orkugjafi yrði því tekinn í notkun mun hraðar en nú.

Sum sveitarfélög eru fjarri jarðhitasvæðum og geta tæpast komið sér upp hagkvæmum hitaveitum. Þaðan mundi fólk flýja hinn háa olíukostnað og leita til jarðhitasvæðanna. Þar mundi þjóðin þjappa sér saman í orkukreppunni.

Enginn vafi er á, að þessi síðari leið er hagkvæmari fyrir þjóðfélagið. Hún knýr það til átaka, til innlendra lausna á orkukreppunni, til nýtingar á ódýrum og íslenzkum orkugjafa. Hún leiðir um síðir til meira ríkidæmis allrar þjóðarinnar.

Gallinn er hins vegar sá, að við getum ekki eingöngu lifað fyrir framtíðina. Við verðum að taka tillit til líðandi stundar, erfiðleika þess fólks, sem verður nú og næstu árin að sætta sig við olíukyndingu. Því ber að fara bil beggja.

Verði orkuskattur tekinn upp, á ekki að nota hann til að stöðva þróunina, til að viðhalda úreltri olíukyndingu, heldur til að stuðla með lánum og styrkjum að frekari útþenslu jarðhitaveitna, að stækkun kökunnar.

Öllum ætti að vera augljóst, að skynsamlegra er að beita skatti til framfara fremur en stöðnunar, til jarðhita fremur en olíu. Ríkisstjórnin þarf að átta sig á, að stækkun kökunnar er ekki síður mikilvæg en skipting hennar.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið