Norðmenn reka sinn sjávarútveg eins og við rekum okkar landbúnað. Við styrkjum hvern starfsmann í landbúnaði með um það bil fjórum milljónum íslenzkra króna. Þeir styrkja hvern fiskimann með um það bil fjórum milljónum íslenzkra króna.
Hér er það sjávarútvegurinn, sem á að halda uppi þjóðfélaginu, þar á meðal landbúnaði. Þar er það stóriðjan og nú síðast olían, sem eiga að halda uppi þjóðfélaginu, þar á meðal sjávarútveginum. Og raunar landbúnaðinum líka.
Norðmenn stefna að því að verða ríkasta þjóð heimsins á olíunni. Þeir geta leyft sér að nota hluta gróðans til að halda uppi harðri byggðastefnu norður eftir allri ströndinni, frá Vesturlandi til Norðurlands.
Norska ríkið greiðir í þessu skyni margs konar styrki. Það greiðir fyrir hvern úthaldsdag og fyrir vegalengdir í siglingu. Það greiðir uppbót á fiskverð og á laun sjómanna. Samtals kostar þetta ríkissjóð 80 milljarða íslenzkra króna.
Hin öflugu samtök sjómanna og útvegsmanna telja þetta ekki nándar nærri nóg. Þau krefjast tvöföldunar upphæðarinnar á þessu ári eða samtals 160 milljarða. Það yrðu þá átta milljónir króna á hvern sjómann.
Svo virðist sem þessi samtök hafi stjórnmálamennina í vasanum vegna áhrifa á fylgi þeirra í kosningum. Þess vegna telja heimildarmenn þessa leiðarahöfundar í Noregi, að styrkir til sjávarútvegs fari hátt yfir 100 milljarða á árinu.
Þessi stefna kemur Íslendingum mjög illa. Okkar sjávarútvegur verður að keppa við norskan sjávarútveg á erlendum markaði. Því meira sem norsk stjórnvöld hossa sínum sjávarútvegi, þeim mun meira þrengist staða íslenzks sjávarútvegs.
Ekki bætir úr skák, að samfara þessu eru Norðmenn að stinga Íslendinga af í tækni, vísindum og fræðslu í sjávarútvegi, bæði í fiskveiðum og fiskiðnaði. Þar spara þeir hvorki fé né menn. Þessi hjálp kemur til viðbótar við ríkisstyrkina.
Af öllu þessu má ráða, að Norðmenn muni í vaxandi mæli geta undirboðið Íslendinga á erlendum markaði sjávarafurða. Styrkjakerfið er eins konar “dumping”, alveg eins og okkar útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða.
Hvað segja svo íslenzkir stjórnmálamenn, þegar sjómenn og útgerðarmenn fara að heimta svipaða styrki og í Noregi? Geta þeir neitað því, að norska styrkjakerfið sé að setja íslenzkan sjávarútveg á hausinn?
Og hversu dýr verða góðu ráðin, þegar íslenzkur sjávarútvegur er kominn á hreppinn eins og hinn norski? Hver á þá að reisa Kröflur Íslands, halda uppi vitstola landbúnaðarstefnu, greiða menntun, heilsu og velferð þjóðarinnar?
Davíð Scheving Thorsteinsson vakti fyrir rúmu ári athygli Fríverzlunarsamtakanna á “dumping” iðnaðarvara í formi ríkisstyrkja, einkum af hálfu Norðurlandanna. Samtökin hafa síðan verið að kanna, hversu óheiðarleg þessi samkeppni sé.
Íslenzk og norsk stjórnvöld munu á næstunni hafa náin samskipti vegna Jan Mayen deilunnar. Það tækifæri má nota til að benda á, hversu óheiðarleg samkeppni felist í ríkisafskiptunum af norskum sjávarútvegi.
Ríkisrekið sport í þágu byggðastefnu í Noregi getur reynzt Íslendingum skeinuhættara en norsk samningaharka í Jan Mayen deilunni. Ef íslenzkur sjávarútvegur hættir að geta haldið þjóðfélaginu uppi, er sjálft fullveldið í voða.
Kannski semjum við þá um, að Ísland fái Jan Mayen gegn því, að Noregur fái Ísland.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið