Jan Mayen leikfléttur

Greinar

Í vörnum norskra embættismanna í Jan Mayen deilunni er um þessar mundir lögð mikil áherzla á svör við þeim rökum Íslendinga, að Jan Mayen sé á íslenzka landgrunninu og að fyrirvarar Jóns Þorlákssonar frá 1927 hafi gildi.

Egil Amlie, yfirmaður lagadeildar norska utanríkisráðuneytisins, sagði íslenzkum blaðamönnum í Osló í síðustu viku, að fyrirvararnir hefðu beinzt að landnámi af hálfu stofnunar, en ekki ríkis og giltu því ekki þjóðréttarlega.

Amlie telur, að fyrirvarana hefði átt að endurtaka árið 1929, þegiar norska ríkið tók við landnámi norsku veðurstofunnar. Íslendingar telja aftur á móti, að fyrirvararnir frá 1923 hafi verið í fullu gildi tveimur árum síðar.

Ýmsir slíkir skemmtilegir lagakrókar af hálfu beggja aðila blikna þó fyrir þeim röksemdum Amlies, að norsk lög og stjórnarskrá banni þeim að gefa eftir hluta af völdum Norðmanna á landi, í sjó og í botni við Jan Mayen!

Nýjasta og hættulegasta röksemd Norðmanna beinist þó að landgrunninu. Carl A. Fleischer prófessor sagði fyrir skömmu í erindi við Háskóla Íslands, að landgrunn Íslands og Jan Mayen væri ekki samfellt, heldur sprungið.

Með þessu eru Norðmenn að gera greinarmun á tvenns konar landgrunni, jarðfræðilega ólíkum. Það gera þeir til þess að geta í senn haldið því fram, að landgrunn Noregs nái norður fyrir Svalbarð, en hið íslenzka ekki norður fyrir Jan Mayen.

Norska landgrunnið er forn skjöldur á máli jarðfræðinga eins og Noregur sjálfur. Íslenzka landgrunnið er hins vegar ungur neðansjávarhygggur. Norska landgrunnið er tiltölulega slétt, en íslenzka landgrunnið stórskorið.

Fari Norðmenn að slá fram tölum um dýpt sprungna á landgrunni Íslands í átt til Jan Mayen, geta þeir alveg eins neitað því, að úfnir eldfjallahryggir séu landgrunn og að Ísland hafi þá yfirleitt nokkurt landgrunn.

Hins vegar kemur hvergi fram í alþjóðlegum gögnum hafréttarmála, að landgrunn þurfi að vera úr graníti eða hafa ákveðinn jarðsögulegan aldur. Íslenzkt landgrunn, sprungið og ósprungið, er jafn gott og gilt sem norskt.

Enda leggja Norðmenn raunar meiri áherzlu á eignarétt sinn. Þeir segjast geta teygt sitt landgrunn út fyrir Svalbarð, norskar eyjar. Íslendingar geti hins vegar ekki teygt sitt grunn út fyrir Jan Mayen, því að það sé ekki íslenzk eyja.

Íslendingar segjast hins vegar hafa í tæpar átta aldir átt ítök á Jan Mayen og við Jan Mayen. Þeir hafi gert fyrirvara um útþenslu Norðmanna á þær slóðir á 20. öldinni og telja hana ekki leiða til neinnar skerðingar á fornum rétti Íslendinga.

Þegar norskir ráðamenn segja 50 ára norskt landnám á Jan Mayen eyða sögulegum rétti Íslendinga, eru þeir komnir út á hálan ís nýlendustefnunnar. Um slíkt eignarhald er deilt víðar um heim en hér í norðurhöfum.

Ýmsar þjóðir, sem áður máttu síns lítils gegn öflugum siglingaþjóðum, eru nú farnar að draga í efa eignarétt þeirra á fjölmörgum klettum og eyjum, óbyggðum sem byggðum, jafnvel þótt nýlendufáninn hafi blakt þar lengur en á Jan Mayen.

Alþjóðaréttur var áður hliðhollur siglingaþjóðunum. En þróunin er í þá átt, að hann taki meira tillit til tímabundinna erfiðleika minni máttar þjóða við að halda sögulegum rétti sínum til streitu.

Að öllu samanlögðu hefur ekkert komið fram af norskri hálfu, er geti fælt okkur frá því að vísa til íslenzks landgrunns norður fyrir Jan Mayen og til fyrirvara Jóns Þorlákssonar frá 1927.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið