Norðmenn og Íslendingar eru sammála um, að hyggilegt sé að semja strax í vor til bráðabirgða um tilhögun fiskveiða umhverfis Jan Mayen. En það er langt frá því sama, hvernig slíkt samkomulag verður orðað.
Heppilegast væri, að ríkisstjórnir beggja ríkjanna gæfu út sameiginlega yfirlýsingu. Þar stæði, að þau tvö ríki, sem ein hefðu hagsmuna að gæta við Jan Mayen, væru að gera út um þau mál sín í milli.
Ennfremur stæði þar, að til bráðabirgða hefðu ríkisstjórnirnar tvær ákveðið að taka sér fiskveiðilögsögu á öllu svæðinu, bæði til að ákveða leyfilegan heildarafla og til að skipta honum milli hinna tveggja málsaðila.
Með þessum hætti gætu Norðmenn og Íslendingar hindrað veiði annarra þjóða á fiskislóðum við Jan Mayen. Einkum þó væri unnt að koma í veg fyrir frekari ofveiði Sovétmanna á kolmunna. Þar með væri tímahraki Jan Mayen deilu lokið.
Síðan gætu Norðmenn og Íslendingar haldið áfram að semja í friði og spekt um hin mörgu og flóknu atriði, er varða réttarstöðu ríkjanna á Jan Mayen og við Jan Mayen. Enda verða þau mál ekki leyst í skyndiviðræðum í vor.
Hængurinn á bráðabirgðalausn um fiskveiðar er þó sá, að hafréttarfræðingar norska utanríkisráðuneytisins hyggjast nota hana til að hlaða fyrsta steininn í norska efnahagslögsögu við Jan Mayen. Á því verðum við að vara okkur.
Í samningaviðræðunum i apríl munu Norðmenn halda því fram, að fiskveiðilögsaga til bráðabirgða hljóti að vera norsk. Á slíkt megum við ekki undir neinum kringumstæðum fallast. Slík lögsaga yrði smúm saman að norskri efnahagslögsögu.
Ef Norðmenn og Íslendingar semja í apríl um skiptingu afla við Jan Mayen og útilokun annarra aðila, má samkomulagið ekki búa til neitt fordæmi, sem önnur hvor ríkisstjórnin geti síðan notað í frekari viðræðum um raunverulega hagsmuni.
Ríkisstjórn Íslands má ekki stíga neitt skref til samninga, sem hafréttarfræðingar norska utanríkisráðuneytisins geti túlkað sem fráhvarf þeirrar stefnu, að landgrunnið við Jan Mayen og fiskurinn þar eigi að falla Íslandi í hlut.
Við verðum að hafa okkar beztu hafréttarfræðinga með í ráðum og leggja höfuðáherzluna á, að orðalag samkomulags um fiskveiðar bindi ekki hendur okkar í framhaldinu. Annars væri samningur um fiskveiðar verri en enginn samningur.
Íslendingar hafa sterk rök fyrir rétti sínum til hafs og hafsbotns við Jan Mayen og geta dregið í efa sjálft eignarhald Norðmanna á eynni. Það hefur verið gert í þessu blaði og víðar og stendur allt óhaggað.
Okkur má undir engum kringumstæðum verða svo mikið mál út af loðnuveiði við Jan Mayen, að við fórnum hinum varanlegu hagsmunum okkar á svæðinu. Við megum ekki semja okkur inn í sögulega þróun, sem leiðir til norskra yfirráða.
Norska þjóðsagan um, að það sé hafréttarlega útilokað, að tvö ríki fari til bráðabirgða með lögsögu á tilteknu svæði, er satt að segja bara rugl, án haldbærra raka. Þeir endurtaka fullyrðinguna í síbylju til að gera úr henni hornstein.
Tvö friðsamleg nágrannaríki, sem hafa átt góð samskipti um langan aldur, geta auðvitað smíðað samning um sameiginlega fiskveiðilögsögu á tilteknu svæði, til bráðabirgða, meðan þau tefla skák réttarstöðunnar til loka. Önnur ríki yrðu að beygja sig fyrir slíkri skipan mála.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið