Sennilega verður Háskóli Íslands búinn að útskrifa hundraðasta félagsfræðinginn áður en hann útskrifar fyrsta sjávarútvegsfræðinginn. Í þessu efni fylgir skólinn þeirri kenningu, að bókvitið verði ekki í askana látið.
Auðvitað þarf háskólinn að mennta félagsfræðinga eins og aðra fræðinga. Hitt er þó ekki síður augljóst, að skólinn hefur tekið verkefnin í vitlausri röð. Fræðsla í þágu atvinnuveganna hefur verið látin sitja á hakanum.
Norðmenn hafa annan hátt á þessu. Þeir eru ekki eins háðir sjávarútvegi og við erum. Samt reka þeir skipulega kennslu í sjávarútvegi allt frá fjölbrautaskólum upp í doktorsgráður. Og þar er mjög sótzt eftir sjávarútvegsfræðingum.
Í Noregi er sérstakur sjávarútvegsháskóli, sem kennir skipulag veiða og vinnslu, hagfræði veiða og vinnslu, tækni veiða og vinnslu, fiskirækt, fiskilíffræði, fiskifræði og matvælafræði auk ýmissa annarra greina.
Norðmenn tengja þessa kennslu vísindalegum rannsóknum, sem stefna að auknum árangri sjávarútvegs. Til dæmis eru þeir að vinna að aðferðum til að auka nýtingu þorsks og loðnu og búa á þann hátt til milljarðaverðmæti.
Þeir hyggjast auka nýtingu þorsks úr 37% í 62% með því að búa til fiskimassa úr þeim hlutum, sem ekki nýtast í flök. Í íslenzkum tölum mundi þetta auka verðmæti 300 þúsund tonna af þorski um 20 milljarða íslenzkra króna.
Þeir eru þegar búnir að reisa tilraunaverksmiðju til vinnslu loðnumassa í fiskibollur til manneldis. Með því geta þeir aukið verðmæti 100 þúsund tonna af loðnu úr fimm milljörðum íslenzkra króna í átján milljarða.
Þetta eru aðeins tvö af ótal dæmum um, að Norðmenn taka sjávarútveg alvarlega og vísindalega. Þeir hafna þeirri bábilju, að brjóstvitið eitt dugi til að gera sjávarútveg samkeppnishæfan við aðrar greinar og útveg annarra landa.
Þetta gera Norðmenn með því að kenna sjávarútveg á öllum stigum framhaldsskóla. Þetta gera þeir með því að afla sér langskólagenginna sjávarútvegsfræðinga og nýta kunnáttu þeirra í atvinnulífi og rannsóknastofnunum.
Þeir Norðmenn, sem um þessi mál fjalla, furða sig mjög á afskiptaleysi og áhugaleysi Íslendinga. Þeir furða sig meðal annars á, að Háskóli Íslands skuli ekki hafa reynt að fylgjast með framtaki Norðmanna í sjávarútvegsfræðum á háskólastigi.
Þeir furða sig á, hve lítinn áhuga fulltrúar Íslands í Norðurlandaráði hafa sýnt tillögum Færeyinga um norrænan sjávarútvegsháskóla. Þeir telja, að það standi raunar fiskveiðiþjóðinni Íslendingum næst að hafa frumkvæði að slíku samstarfi.
Margir eiga sök á því, að við höfum látið Norðmenn skjóta okkur ref fyrir rass í sjávarútvegi. Það eru stjórnmálamennirnir og flokkarnir. Það eru embættismenn menntamála og ráðamenn embættismanna-framleiðslunnar í Háskóla Íslands.
Við eigum vísi að sjávarútvegsfræðslu í Fiskvinnsluskólanum og í útgerðartæknideild Tækniskólans. Nú verðum við að hlúa að þessum vísi og gera unga fólkinu kleift að fjölmenna í nám á öllum sviðum sjávarútvegs.
Ef við gerum þetta ekki, drögumst við aftur úr. Sjálft íslenzka þjóðfélagið verður ekki lengur samkeppnishæft við önnur. Þess vegna þurfum við að setja okkur það mark að útskrifa fleiri sjávarútvegsfræðinga en félagsfræðinga.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið