Múlakaffi er líklega vinsælasti matstaður Reykjavíkur. Þangað flykkjast vöruflutningabílstjórarnir. Í Frakklandi væri slíkt talið merki þess, að um góða matstofu væri að ræða. Í hádeginu er hinn stóri, 200 sæta salur nokkurn veginn fullsetinn.
Í kvöldmat koma einhleypingarnir, sem búa í leiguherbergjum úti í bæ. Þeir nota Múlakaffi sem sitt annað heimili, hanga þar fram eftir kvöldi yfir sjónvarpinu. En hvað er það, sem gerir Múlakaffi svona vinsælt?
Ekki eru það útlitið eða innréttingarnar. Hinn stóri salur er fremur kuldalegur og alls ekki smekklegur. Hann hefur þó eins konar teppi á gólfi og lítur snyrtilega út, nema kannski rétt á meðan hádegisbylgjan er að falla út.
Kannski hefur verðið mikið að segja, en tæplega allt. Mér sýnist Matstofa Austurbæjar vera örlitlu ódýrari, Laugaás á sama verði, Hornið og Brauðbær lítillega dýrari. Múlakaffi sker sig því ekki eitt úr í lágu verði, þótt lágt sé.
Saltkjöt og baunir
Mér sýnist helzt, að vinsældirnar stafi af því, að menn fá heimilismat í Múlakaffi, mat eins og þeir fengu hjá mömmu gömlu. Þeir njóta þar hefðbundinnar íslenzkrar matreiðslu, sem er heilum gæðaflokki ofan við flestar steikarbúlur.
Í Múlakaffi fá menn til dæmis steikta lifur, saltkjöt og baunir, hangikjöt, gúllas, kjötbollur, hvítkálsböggla, fiskibollur, saltfisk, soðna ýsu, skötu, skyr með rjómablandi, hvítar kartöflur og brúnaðar, rauðkál og mjólk.
Menn fá hins vegar ekki pizzur og tæplega hamborgara, franskar kartöflur og kokkteilsósu. Að vísu er í Múlakaffi sérstakt grillhorn, þar sem menn geta sérpantað steikur og hamborgara, franskar og kokkteilsósu, en sárafáir notfæra sér það.
Rótfestan í matreiðslu Múlakaffis er greinilega að skapi hins úlpuklædda almennings, sem vinnur fyrir sér með höndum sínum. Hvítflibbungar sjást þar fáir og enn síður rótlaus unglingaaðallinn, sem elskar franskar með sósu á steikarbúlum.
Skata með mörfeiti
Í rauninni er 200 sæta salur allt of stór. Umsetningin er of hröð fyrir góða matreiðslu. Enda byggist árangur Múlakaffis á því, að eigandinn er ekki í forstjóraleik, heldur fylgist dag eftir dag árvökulum augum með stóru og smáu. Þannig heldur staðurinn matreiðslureisn, þrátt fyrir stærðina.
Ég er með þessu ekki að segja, að Múlakaffi sé eitthvert Mekka matargerðarlistar. Aðeins, að matreiðslan þar er í góðu meðallagi, fylgir íslenzkri hefð og er betri en á öllum grillstöðum borgarinnar, öðrum en Brauðbæ.
Í Múlakaffi er til sérstakur fastamatseðill, sem enginn notar og er ekki hafður til sýnis. Allir gestir nota matseðil dagsins, sem býður upp á tvær súpur, skyr og kaffi, fimm aðalrétti í hádeginu og fjóra á kvöldin.
Í hádegisheimsókn Vikunnar var boðið upp á soðna skötu með mörfeiti, steikt smálúðuflök, reykt folaldakjöt með kartöflujafningi og Vínarsnitsel með grænmeti. Í kvöldheimsókninni voru pönnusteikt ýsuflök, sænskur biximatur, ragú með kartöflustöppu og enskt buff með lauk.
Súpa
Espagnole var hveitisúpa, sæmileg sem slík og ekki kekkjuð, en ekki við minn smekk. Verð súpunnar var innifalið í verði rétta dagsins, en sérpöntuð kostaði hún 700 krónur.
Í þessu hádegi mátti velja milli Espagnole og vanillusúpu og um kvöldið mátti velja milli “súpu” og makkarónusúpu. Menn geta því valið um að fá venjulega hveitisúpu á undan aðalrétti eða, eins og tíðkaðist hér áður fyrr, sæta mjólkursúpu á eftir aðalrétti.
Steikt lifur
Steikt lifur með kartöflustöppu var ágætur matur. Lifrin var hæfilega steikt og bragðgóð. Kartöflustappan var sómasamleg. En brúna hveitisósan var ekki lystug. Verðið var 2.500 krónur að súpu innifalinni.
Pönnufiskur
Pönnusteikt ýsa með hvítum kartöflum og hrásalati var góður hversdagsmatur. Fiskurinn var hvítur að innan. Steikarhjúpurinn var hvorki of voldugur né með grófu feitibragði. Hvítu kartöflurnar voru góðar og hrásalatið var bæði fjölbreytt og gott. Verðið var 2.300 krónur með súpu.
Laukbuff
Buff með lauk, rauðkáli og brúnuðum kartöflum var furðu góður matur. Buffið hafði verið duglega barið og var nokkuð meyrt. Ekki hefði þó skaðað að steikja það töluvert minna. Rauðkálið var tiltölulega milt á bragðið. Brúnuðu kartöflurnar voru ljósar, ekki of mikið brúnaðar og bara nokkuð góðar. Verðið var 3.300 krónur með súpu.
Kótilettur
Grillaðar kótilettur með hreðku, salatblaði, frönskum kartöflum og hrásalati var ekki á seðli dagsins, heldur á fastaseðli grillhornsins. Þær höfðu ekkert umfram hina hversdagslegri rétti matseðils dagsins. Þær voru ekki of feitar, en fullmikið grillaðar og ofsaltaðar. En þær voru meyrar og sæmilega bragðgóðar. Dálítið feitibragð var að frönsku kartöflunum, sem voru þó sæmilega ljósar. Hótelsmjörið var í lagi og hrásalatið fjölbreytt og gott. Verðið var 3.700 krónur.
Skyr
Hrossaskammtur af skyri með rjómablandi, sem ætti einn út af fyrir sig að seðja hvern sem er, kostaði 900 krónur.
Ís
Marsipanís með niðursoðnum perum og súkkulaði var á fastaseðlinum. Í rauninni var hann með niðursoðnum jarðarberjum og að auki með þeyttum rjóma, blönduðum safanum úr berjadósinni. Þetta var emmess ís og kostaði 700 krónur.
Kaffi
Kaffið var ósköp líkt því, sem gengur og gerist á íslenzkum veitingahúsum. Helzti kostur þess var hinn sami og í Laugaási og Matstofu Austurbæjar, að kaffi eftir mat er selt á lægra verði en kaffi eitt út af fyrir sig. Verðið var 220 krónur.
Það er skynsamlegt hjá Múlakaffi að leggja alla áherzlu á matseðil dagsins og skipta stöðugt um rétti á honum. Fyrir bragðið ræður eldhúsið betur við það, sem upp á er boðið. Fastaseðillinn er líka fremur hóflegur og telur aðeins 13 aðalrétti.
Meðalverð tveggja rétta máltíðar á seðli dagsins var 2.600 krónur. Að kaffi viðbættu kemst máltíðin upp í 2.800 krónur, sem eru reyfarakaup. Hliðstæð tveggja rétta máltíð með kaffi kostar 2.600 krónur í Matstofu Austurbæjar, 3.000 krónur í Laugaási, 3.600 krónur í Aski, 4.100 krónur í Skrínunni og meira annars staðar.
Meðalverð sex forrétta og smárétta á fastaseðlinum var 1.600 krónur, 13 aðalrétta 3.800 krónur og þriggja eftirrétta 800 krónur. Meðalverð þriggja rétta máltíðar af þeim seðli ætti því að vera 6.200 krónur og 6.400 krónur að kaffi meðtöldu.
Múlakaffi hefur hvorki þjónustu né vín og getur því ekki fengið stig fyrir þá hluti. Og ekki getur staðurinn fengið hátt fyrir útlitið og innréttingarnar. En frá sjónarmiði matargerðarinnar einnar er Múlakaffi virðingarverður staður, sem heldur uppi merki íslenzkrar heimilismatreiðslu.
Múlakaffi fær sex í einkunn fyrir matreiðslu og fimm fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er fjórir.
Jónas Kristjánsson
Vikan