Farið varlega.

Greinar

Norðmenn og Íslendingar munu í þessari lotu ekki ná samkomulagi um varanlega skipan mála á Jan Mayen svæðinu. Sjónarmiðin eru svo andstæð, að það mun taka langan tíma að finna sanngjarna lausn, þótt báðir aðilar legðu sig fram.

Enda munu ríkisstjórnir beggja landa telja vænlegra til árangurs að stefna að niðurstöðu á afmörkuðu sviði fyrir sumarið. Tímahrak deiluaðila er fyrst og fremst í skipulagi fiskveiða á Jan Mayen svæðinu. Það skipulag er nú aðalmálið.

Hagkvæmast fyrir báða aðila er að koma á einhverri þeirri skipan, sem í raun hindri veiðar annarra á þessu svæði og ákveði skiptingu loðnunnar milli Norðmanna og Íslendinga. Slík niðurstaða væri áfangasigur fyrir báða.

Vandinn er hins vegar sá, að samkomulag til bráðabirgða má ekki búa til neitt fordæmi, sem önnur hvor ríkisstjórnin geti síðan notað sér í hag í frekari viðræðum um varanlega hagsmuni á Jan Mayen svæðinu. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Norsk stjórnvöld eru andvíg samkomulagi, sem síðar mætti túlka sem vefengingu á rétti þeirra til efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu við Jan Mayen. Og íslenzk stjórnvöld eru andvíg samkomulagi, sem síðar mætti túlka sem staðfestingu slíks réttar.

Til bráðabirgða gætu ríkisstjórnirnar tilkynnt sameiginlega, að þær hefðu tekið að sér fiskvernd og skipulag fiskveiða á þessu svæði, þar með ákvörðun leyfilegs afla úr einstökum stofnum og skiptingu hans.

Af norskri hálfu er því haldið fram, að sameiginlegar tilkynningar af slíku tagi hafi ekkert hafréttargildi. Þetta segja þeir af ásettu ráði til að negla fast það sjónarmið, að samkomulag þurfi að vera innan ramma norskrar efnahagslögsögu.

Í raun eru þetta marklausar röksemdir. Aðrar þjóðir, meira að segja Rússar, mundu eiga mjög erfitt með að athafna sig í trássi við sameiginlega yfirlýsingu Norðmanna og Íslendinga um skipan fiskveiða á Jan Mayen svæðinu.

Ef litið er til fortíðarinnar, má sjá, að svokallaður hafréttur er lítið annað en formleg staðfesting á rétti, sem hinn sterki hefur tekið sér. Og enginn getur efast um, að einungis Norðmenn og Íslendingar hafa þarna sögulegan efnahagsrétt.

Íslendingar verða að halda fast við þá skoðun, að norsk efnahagslögsaga við Jan Mayen komi ekki til greina. Fyrir því eru ýmsar gildar ástæður.

Segja má, að það sé söguleg tilviljun, að hinn sterki aðili í þessum samanburði, Noregur, hafði bolmagn til að nýta hagsmuni sína á Jan Mayen til landnáms, þótt nær allar götur hafi tengslin við Jan Mayen fremur verið íslenzk en norsk.

Við lítum á það sem norska útþenslustefnu, þegar reynt er að nota þessa sögulegu tilviljun til að draga úr rétti Íslendinga til landgrunns á neðansjávarhryggnum út til 350 mílna í samræmi við nýjan hljómgrunn á Hafréttarráðstefnunni.

Við lítum líka á það sem norska útþenslustefnu, þegar þetta sama er reynt að nota til að draga úr rétti Íslendinga til umsjónar með þeim loðnustofni, sem þeir urðu fyrstir til að nýta, á undan Norðmönnum.

Efnahagslögsaga byggist á efnahagsþörfum íbúa strandarinnar. Á Jan Mayen eru engir þeir íbúar, sem sækja sjó eða vinna verðmæti af hafsbotni. Við höfum hins vegar íbúa til að nýta allt landgrunn og landgrunnshaf Íslands og Jan Mayen.

Þessa dagana skiptir mestu, að samningamenn Íslands láti ekki teyma sig út í neitt orðalag, er skert geti þann rétt, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið