Sanngirnin er ekki til.

Greinar

Tvennt getum við lært af Jan Mayen fundum þessarar viku. Í fyrsta lagi hafa norsk stjórnvöld lítinn sem engan áhuga á sanngirni í samkomulagi við íslenzk . Og í öðru lagi er málstaður okkar vonlaus, meðan sundrung okkar er norskum stjórnvöldum ljós.

Það er útbreiddur misskilningur hér á landi, að norsk stjórnvöld vilji samkomulag á sanngirnisgrundvelli. Það, sem þau vilja, er íslenzk undirritun á skilyrðislausri uppgjöf í Jan Mayen málinu í heild. Að því stefna þau markvisst.

Stundum láta norsk stjórnvöld í það skína, að þau hafi áhuga á gagnkvæmri sanngirni. Síðast láku þau í norska fjölmiðla eins konar boði um íslenzkar 200 mílur í átt til Jan Mayen, helmingaskiptum auðlinda við Jan Mayen og eins konar íslenzka loðnuveiðistjórn.

Íslenzkir stjórnmálamenn velta því síðan fyrir sér, hvort rétt sé að samþykkja norska fiskveiðilögsögu eða efnahagslögsögu í skiptum fyrir hin ímynduðu norsku boð. En þessi boð eru alls ekki til, þegar á hólminn er komið.

Í staðinn er beitt aðferðum mafíunnar og sett fram tilboð af því tagi, sem kallað er, að ekki sé hægt að hafna. Í fyrra var reynt að setja Íslendinga í skrúfstykki með hótunum um fyrst rússneska og síðan norska ofveiði á loðnu.

Í þetta sinn var hótað með Efnahagsbandalaginu. Íslendingar verði meira að segja að fallast á miðlínu milli Íslands og Jan Mayen til að skapa fordæmi um miðlínu milli Jan Mayen og Grænlands. Þá muni íslenzk fiskimið lenda Jan Mayen megin.

Síðan er veifað framan í samningamenn Íslands óljósum hugmyndum um íslenzkan veiðirétt á þessu svæði. Ekki er þetta þó meira áþreifanlegt en aðrar tálsýnir og gildrur í vopnabúri samningamanna norskra stjórnvalda.

Í rauninni eru minni líkur á, að slíkur réttur náist hjá Norðmönnum en hjá Dönum, jafnvel þótt Efnahagsbandalagið sé þar að baki. Íslendingar hafa góða reynslu af danskri sanngirni, til dæmis í handritamálinu.

Af norskri hálfu þekkjum við hins vegar aðeins takmarkalausa ósanngirni í Jan Mayen málinu. Þessi ósanngirni er svo einlæg og eðlileg, að norskum samningamönnum finnst allt í lagi að koma umboðslausir, að því er varðar landgrunnið.

Þeir menn, sem kalla greinargerð Sigurðar Lindal, ,drivtömmerfilosofi”, hafna allri sögu Jan Mayen fyrir árið 1926. Þeir gefa líka í skyn, að landgrunn sé ekki til á neðansjávarhryggjum. Og þeir neita því, að sanngirnislína komi í stað miðlínu.

Auðvitað er norskum stjórnvöldum fullkomlega heimilt að koma fram af stjórnlausri frekju. En jafnframt er til of mikils mælzt, að Íslendingar trúi því, að þeir geti samið um fríðindi eftir að þeir eru búnir að fallast á norska lögsögu.

Sumir íslenzkir stjórnmálamenn, svo og Alþýðublaðið, telja, að Íslendingar séu komnir upp að vegg og neyðist til að semja um hvað sem er, áður en 1. júní rennur upp og þar með dönsk útfærsla við Grænland. Þessi taugaveiklun er óskiljanleg.

Ímyndunin um íslenzkt tímahrak hefur valdið sundrungu hjá íslenzkum samningamönnum og fjölmiðlum og magnað vissu norskra stjórnvalda um skilyrðislausa og undirritaða uppgjöf Íslendinga í Jan Mayen málinu.

Hér er ekki rúm til að ræða sundrungina. En hitt er fáránlegt, að Norðmenn skuli geta talið nokkrum Íslendingum trú um, að dönsk útfærsla við Grænland eigi að leiða til íslenzkrar uppgjafar gagnvart Norðmönnum.

Ekkert rökrétt samhengi er þar að baki.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið