Hvimleiðar dúfur.

Greinar

Íslenzkur blaðamaður sagði fyrir rúmri viku í eyru norskra starfsbræðra, sem voru hér á ferð, að markmið Dagblaðsins með stefnu þess í Jan Mayen málinu væri að auka sölu blaðsins.

Stjórnmálamenn höfðu þá sagt þessum norsku blaðamönnum, að Ólafur Ragnar Grímsson væri tækifærissinni, sem notaði Jan Mayen málið til að vekja athygli á sjálfum sér.

Um mánaðamótin höfðu enn aðrir sagt sumum þessara blaðamanna úti í Noregi, að Eyjólfur Konráð Jónsson hefði ruglazt í ríminu, er hann kynnti hin íslenzku Jan Mayen viðhorf í New York.

Þótt allt þetta væri satt, er heimskulegt að flagga því framan í norska fjölmiðla, að baráttumenn íslenzkra hagsmuna séu annarlegir, illgjarnir eða heimskir.

Því miður er það árátta margra Íslendinga að tapa áttum í viðurvist útlendinga. Ein mynd þessa er sú árátta að rægja landa sína í erlend eyru. En sú árátta er ekki hin eina.

Sumir utanríkisráðherrar okkar hafa verið sérfræðingar í að koðna niður og verða að gjalti gagnvart erlendum stórmennum, jafnvel í viðræðum við Frydenlund um Jan Mayen.

Sök Dagblaðsins, Ólafs og Eyjólfs hér að framan var aðeins sú að hafa haldið fram viðhorfum allra íslenzku þingflokkanna, viðhorfum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu.

Ólafur Jóhannesson segir nú, að sér hafi ekki dottið í hug að mæla með grundvelli hins illræmda uppkasts fundanna í síðustu viku.

Undir forustu Sighvats Björgvinssonar hefur þingflokkur Alþýðuflokksins tekið harðari stefnu en áður í Jan Mayen málinu, hliðstæða stefnu hinna flokkanna.

Því eru þeir engir sértrúarmenn, sem fordæma uppkastið, efast um heilindi Norðmanna og hafna rétti þeirra til efnahagslögsögu við Jan Mayen.

Meira að segja hljóðið í Morgunblaðinu og Tímanum er orðið raunsærra en áður. Tíminn segir, að Norðmenn hafi verið óbilgjarnir, þverir og ósanngjarnir við samningaborðið.

Morgunblaðið segir, að Norðmenn hafi siglt viðræðunum í strand með því að hafa ekki meðferðis umboð ríkisstjórnarinnar til að ræða hafsbotninn umhverfis Jan Mayen.

Nú orðið koma sjónarmið í þágu Norðmanna helzt í ljós í Alþýðublaðinu og eru þau ekki í samræmi við sjónarmið Alþýðuflokksins.

Þar er hinu sama haldið fram og í norskum fjölmiðlum, að Íslendingar séu í klípu og tímahraki vegna 200 mílna efnahagslögsögu Grænlands hinn 1. júní.

Þessi ímyndun um tímahrak byggist á þeim misskilningi, að auðveldara verði að semja við Norðmenn en Dani og Efnahagsbandalagið.

Ný og gömul saga kennir okkur hins vegar, að norsk stjórnvöld eru og verða harðskeyttust allra í viðræðum um íslenzka hagsmuni á norðurslóðum.

Auðvitað er okkur mikilvægt að ná samkomulagi um veiðar innan 200 mílna frá Grænlandi. En um það viljum við semja við aðra en Norðmenn.

Nú vitum við líka annað: Norsk stjórnvöld munu smella í baklás um leið og þau fá skriflegan vott af íslenzkri viðurkenningu á norskri lögsögu.

Framhaldið verður nógu erfitt, þótt ekki sé hvatt til æðibunugangs. Einhliða norsk útfærsla gegn mótmælum er skárri en 95% uppgjöf okkar.

Á meðan mættu ljúflingar Norðmanna gjarna láta af því að rægja hina, sem fast vilja standa á rétti Íslands, og hætta að ráðast á sjónarmið þeirra.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið