Ikarus.

Greinar

Mikið hefur verið deilt um ungversku Ikarus strætisvagnana, sem Reykjavík hefur átt kost á að kaupa. Í stórum dráttum hafa alþýðubandalagsmenn verið hlynntir kaupum, sjálfstæðismenn andvígir og aðrir verið nokkuð tvístígandi.

Kaupin voru einkar freistandi vegna hins lága verðs. Það hefði gert Reykjavík kleift að endurnýja flotann mun örar eða spara sér stórfé. Á móti komu svo rökstuddar efasemdir um, að strætisvagnarnir mundu standa sig hér.

Dagblaðið lagði til, að keyptir yrðu örfáir Ikarus vagnar til reynslu, en brýnni vagnaþörf að öðru leyti mætt á hefðbundinn hátt. Þar með væri dregið úr áhættu, án þess að hafnað væri möguleika á stórfelldum sparnaði í framtíðinni. Þessi stefna hefur orðið ofan á. Það var skynsamleg ákvörðun, sem heldur dyrunum opnum.

Aðstoðarráðherrar.

Dagblaðið gagnrýndi á sínum tíma hinn mikla fjölda ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Það hlýtur að teljast nokkuð rausnarlegt, að sjötti hver þingmaður skuli vera ráðherra. Svo margir hafa þeir aldrei verið áður.

Um leið hvatti blaðið til þess, að ekki yrðu skipaðir aðstoðarráðherrar. Með bindindi á því sviði hefði ríkisstjórninni tekizt að halda ráðherrakostnaði innan við það, sem hann var í tíð síðustu vinstri stjórnar.

Á þessu hefur ekki verið tekið mark. Þegar hafa verið skipaðir þrír aðstoðarmenn ráðherra. Er því ráðherrakostnaður, miðað við verðlag hvers tíma, kominn upp í það, sem hann var í fyrra. Það er vond þróun á samdráttartíma.

Kortsjnoj.

Að undanförnu hafa sumir hneigzt til opinberrar gagnrýni á Kortsjnoj, skákmeistarann landflótta. Hann hefur verið sakaður um eigingirni, skapbresti og slæma framkomu gagnvart aðstoðarmönnum og velvildarmönnum.

Þessir gagnrýnendur mega þó ekki gleyma kjarna málsins. Hann er sá, að glæpsamlegt er að hindra brottför konu hans og sonar frá Sovétríkjunum. Það er gróft brot á lágmarksréttindum þeim, sem stofnskrá Sameinuðu þjóðanna á að tryggja.

Menn hefðu vænzt þess, að ársþing Alþjóðlega skáksambandsins í Reykjavík mundi marka einhverja ferska sókn í þessu mannréttindamáli. Þögn þingsins um mál fjölskyldu Kortsjnojs er ósigur mannréttinda og sambandinu til vansæmdar.

Flokkakostnaður.

Alþýðuflokkurinn í Reykjavík hefur birt reikninga kosningabaráttu sinnar á öndverðum þessum vetri. Reikningarnir eru ekki aðeins athyglisverðir fyrir þá sök, að þeir sýndu hagnað flokksins af kosningabaráttunni.

Markverðast er, að þeir skuli vera birtir alþjóð. Í því felst heiðarleg tilraun til að opna flokkinn og sýna almenningi starfshætti hans. Og það er alltaf traustvekjandi, þegar stjórnmálamenn eru ekkert að fela.

Ástæða er til að hvetja aðra stjórnmálaflokka til að fylgja ágætu og drengilegu framtaki Alþýðuflokksins á þessu sviði. Flokkarnir eru hálfopinberar stofnanir, sem eiga að hafa tekjur sínar og gjöld í dagsljósinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið