Fyrr í vetur hvatti Dagblaðið Carter Bandaríkjaforseta að láta ekki taka sig á taugum í hinu einstæða og hörmulega gíslamáli í Íran. En það hefur hann einmitt gert og leyft herfræðingum sínum að færa sér hrapallegan ósigur.
Carter var í fullum rétti, þegar hann lét reyna að bjarga gíslunum með vopnavaldi. Klerkaveldið í Íran hafði fyrirgert rétti til friðar. Ofstæki þess hafði rofið aldagamla hefð á friðhelgi sendimanna.
En réttlæti og skynsemi þurfa ekki að fara saman. Herfróðir menn höfðu bent á, að nánast útilokað sé að ná gíslum úr prísund miðborgar, þar sem allur almenningur er andvígur innrásarliði. Slíkt mundi stefna lífi gíslanna í öruggan voða.
Gíslarnir í Íran eru mikið tilfinningamál í Bandaríkjunum og geta hæglega orðið Carter hættulegt kosningamál. Margir Bandaríkjamenn eiga erfitt með að skilja, að stjórnin getur ekki tryggt öryggi borgaranna í útlöndum.
Ráðamenn í Vestur-Evrópu búa ekki við þennan vanda sárt leikinna landsmanna. Þeir hafa réttilega hvatt ráðamenn Bandaríkjanna til að fara varlega í gíslamálinu. Enda er mikið í húfi fyrir Vesturlönd, að stjórnmál Írans þróist til betri vegar.
Gíslamálið er tilfinningamál. En frá heimspólitísku sjónarmiði er það smámál í samanburði við innrás Sovétríkjanna í nágrannalandið Afganistan. Þar er á ferðinni eina alvarlega ógnunin við heimsfriðinn, útþenslustefna Moskvukeisara.
Þar hafa ráðamenn í Vestur-Evrópu ekki staðið sig eins vel. Þá skortir hnattarsýn ráðamanna í Bandaríkjunum, eru of bundnir þröngri Evrópusýn. Flestir þeirra, aðrir en Margaret Thatcher í Bretlandi, láta staðbundna hagsmuni villa sér sýn.
Ráðamenn Vestur-Þýzkalands eru háðir óskhyggju minnkaðrar spennu í Evrópu og óhóflegum viðskiptahagsmunum í Austur-Evrópu. Ráðamenn Frakklands eru háðir ímyndinni um hina “sérstöku sambúð” Frakklands og Sovétríkjanna.
Þessir ráðamenn hugsa sumpart eins og kaupmenn. Sú hugsun er ágæt gagnvart Íran og öðrum löndum Íslams, sem þarf að færa inn í friðsamlegt samfélag þjóðanna. En hún dugir ekki gagnvart Sovétríkjunum, sem vilja drottna yfir heiminum.
Svo langt erum við leidd í Vestur-Evrópu, að við eigum erfitt með að skilja, hversu nauðsynlegt er að hunza ólympíuleikana í Moskvu. Íslenzka ólympíunefndin hyggst fara þangað og nýtur í því stuðnings sex af hverjum tíu landsmönnum.
Dagblaðið hefur hins vegar hvað eftir annað bent á, að Vesturlönd og þar á meðal Ísland verða að hunza Moskvuleikana. Við megum alls ekki endurtaka hina bitru reynslu Berlínarleikanna 1936. Við verðum að sýna fyrirlitningu í verki.
Jarmið um íþróttir og pólitík er marklaust. Ólympíuhugsjónin er þegar drukknuð í lyfjaþrælum og vélmennum. Við getum bjargað henni með alþjóðlegum sjónvarpsleikum til bráðabirgða og síðan til frambúðar með föstum leikum í Olympíu.
Auðvitað mun mörgum þegnum Sovétríkjanna sárna fjarvera fulltrúa af Vesturlöndum. En það er óhjákvæmilegt, að sannleikurinn síist inn í brotum: Ríki, sem hafnar mannréttindum heima fyrir og ræðst á aðrar þjóðir, getur ekki haldið ólympíuleika.
Kjarni máls þessa leiðara er sá, að gagnvart Íran eiga Vesturlönd að starfa með silkihönzkum, þrátt fyrir klerkaveldið, en gagnvart Sovétríkjunum er kominn tími til að sýna festu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið