Súlnaberg undir Hótel KEA á Akureyri er gott dæmi um tilfinningasnauða færibandamatstofu, sem gefur gestum fóður á garðann, svo að þeir hætti að vera svangir. Engu máli skiptir, hvernig fóðrið er, ef það bara seður.
Þannig er hinn íslenzki einkennismatstaður. Annars vegar er ausið upp úr hitadunkum sundurtættum mat, sem haldið hefur verið heitum allt of lengi. Hins vegar er grillað og djúpsteikt eftir pöntunum í steikarbúluhorni.
Meira að segja börnin, sem elska tómatsósu, hamborgara og franskar meira en annan mat, sögðu, að þetta væri vondur matur og raunar verri matur en enginn matur. Súlnaberg getur semsagt keppt við verstu matstofur Reykjavíkur.
Sjálfur staðurinn er fremur snyrtilegur og virðist vel við haldið. Litasamsetningarnar eru góðar. Brúnir rimlaveggir brjóta niður flötinn, einkum á efra gólfi, þar sem rólegra er að vera. Niðri er meiri annríkisblær yfir öllu.
Fastamatseðillinn er fremur stuttur, með sex forréttum, þremur fiskréttum, átta kjötréttum og sjö eftirréttum, þar af fimm ísum. Matseðill dagsins er aftur á móti langur og þar að auki miklum mun ódýrari en fastaseðillinn.
Daginn, sem Vikan prófaði Súlnaberg, var boðið upp á blómkálssúpu á 650 krónur, djúpsteikt ýsuflök með remúlaði á 2.250 krónur, grísasultu með rauðrófum á 1.900 krónur, vínarpylsur með kartöflusalati á 2.680 krónur, fylltan dilkabóg með rauðrófum á 2.530 krónur, lambasnitsel með grænmeti á 2.980 krónur, frómas á 650 krónur, sveskjukompott á 500 krónur, rjómaís á 500 krónur, skyr með rjómablandi á 800 krónur og ávaxtagraut á 950 krónur.
Djúpsteikt ýsa
Djúpsteikt ýsuflök á matseðli dagsins voru köld upp úr hitapottinum. Þau voru bragðlaus að mestu. Remúlaðisósan var ómerkileg. Hvítu kartöflurnar voru hins vegar frambærilegar, svo og léttsýrðu gúrkurnar. Verðið var 2.250 krónur, sem fyrr segir.
Lambasnitsel
Lambasnitsel með grænmeti á matseðli dagsins hafði verið lamið ótæpilega og var því meyrt og nánast sundurlaust, en næstum alveg bragðlaust. Rauðkál úr glasi var væmið á bragðið. Sýrð gúrkan var í lagi sem fyrr segir. Blandaða dósagrænmetið var þrælsoðið og viðbjóðslegt. Brúnuðu kartöflurnar voru í grautarformi. Hin alræmda, íslenzka framleiðsla, jarðarberjasulta, kórónaði sköpunarverkið. Verðið var 2.980 krónur.
Grillaðar lambakótilettur
Ekki var ástandið betra í grillinu. Þaðan bárust okkur mjög svo feitar og ólögulegar “glóðarsteiktar lambakótilettur með kryddsmjöri, hrásalati og frönskum kartöflum”. Þær jóðluðu í feiti, auk sinnar eigin feiti. Kryddsmjörið var sæmilegt, en ákaflega lítið kryddað. Hrásalatið drukknaði í allt of mikilli og gríðarlega væminni sósu. Frönsku kartöflurnar voru bæði of saltaðar og of steiktar. Verðið var 3.530 krónur.
Hamborgari
Meira að segja hamborgari staðarins var þurr og leiðinlegur á bragðið. Frönsku kartöflurnar voru illa meðhöndlaðar, sem fyrr segir. Og tómatsósan var dísæt, innlend framleiðsla. Verðið var 990 krónur fyrir utan sósu og kartöflur, en 1.890 krónur með þeim.
Meðalverð tveggja rétt máltíðar á matseðli dagsins var 3.100 krónur og þriggja rétta máltíðar 3.800 krónur. Meðalverð forrétta, súpa og eggjarétta á fastaseðlinum var 2.000 krónur, aðalrétta 4.300 krónur og eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli, án kaffis , ætti því að kosta um 7.000 krónur.
Á reikningnum var bara ein heildartala. Ef einstakir liðir hafa verið rétt reiknaðir, kostar kaffibolli eftir mat heilar 3.630 krónur. Ef hann kostar minna, hefur Súlnaberg reiknað verð máltíðarinnar mjög svo gróflega sér í hag, umfram það, sem stendur á matseðli. Og eru þau verð nógu há fyrir, þótt ekki sé á þau smurt.
Súlnaberg er í verðflokki með Skrínunni, Aski og Halta hananum í Reykjavík og mun dýrari en miklu betri staðir á borð við Brauðbæ, Hornið og Laugaás, svo ekki sé talað um hina ódýru staði, Múlakaffi og Matstofu Austurbæjar.
Súlnaberg fær tvo í einkunn fyrir matreiðslu og fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn matstofunnar eru tveir. Að fara í Súlnaberg var eins og að lenda í klóm ræningja.
Jónas Kristjánsson
Vikan