Gjáin er pólitísk.

Greinar

Sá tími er löngu liðinn, er stjórnmálamenn og embættismenn voru blómi þjóðarinnar, stóðu í fylkingarbrjósti sjálfstæðisbaráttunnar og mótuðu það þjóðfélag, sem við nú búum við. Þeir gerðu það á fyrstu áratugum aldarinnar.

Síðustu fjóra áratugina hefur ekki orðið eðlileg endurnýjun í þessum stéttum og sízt í stjórnmálunum. Ungt hæfileikafólk hefur streymt í aðrar áttir og einkum lagt fyrir sig langskólanám í vísindum, verkfræði og tækni.

Um þetta eru engar tölur til sönnunar. Samt er óhætt að fullyrða, að hinn langi menntavegur hefur haft gífurlegt aðdráttarafl hér á landi, einkum í raungreinum og verklegum fræðum. Þar hefur hæfileikafólkið safnazt fyrir.

Enda kemur yfirleitt í ljós á nýjum sviðum atvinnulífsins, að engin tæknigjá er milli Íslands og umheimsins. Íslenzkir hugvitsmenn og lærdómsmenn eru fljótir að koma til skjalanna í greinum á borð við stóriðju, fiskirækt og tölvutækni.

Þessir sömu árgangar hafa aftur á móti verið fráhverfir stjórnmálum og litið niður á þau. Hér er ekki rúm til að ræða orsakir þessa misræmis, aðeins afleiðingarnar, þær, að stjórnmálin hafa smám saman fyllzt af undirmálsfiski.

Í fiskifræðum er til mikið af hæfu fólki, sem hefur safnað þekkingarforða, er ætti að geta gert okkur kleift að reka fiskveiðar eins og skynsamlegan búskap. Þetta er hins vegar til lítils, þegar fræðin rekast á stjórnmálin.

Þar ráða menn, sem ár eftir ár leyfa meiri veiði en skynsamleg er. Menn, sem búa til fjármögnunarkerfi, er leiðir til óhóflega stórs og óhagkvæms veiðiskipaflota og hindrar meira að segja, að hann sé þó smíðaður hér á landi.

Skipasmíðarnar eru raunar gott dæmi um grein, þar sem til er í landinu nóg þekking og tækni, en tækifærin lítil, eingöngu vegna fjármögnunaraðgerða stjórnmálamanna, sem virðast heldur vilja, að Íslendingar sói orku sinni í landbúnað.

Undirmálsmenn stjórnmálanna hafa tröllatrú á, að betra sé að framleiða hér smjör á 5000 krónur kílóið en kaupa það til landsins á 500 krónur kílóið. Og þeim finnst í lagi að flytja út slíkar vörur fyrir örlítið brot af kostnaðarverði.

Orkumálin eru annað dæmi um skortinn á jafnvægi milli vísinda og tækni annars vegar og stjórnmála hins vegar. Þar er til nóg af fólki, sem getur beizlað auðlindir landsins hratt og örugglega mun djarflegar en nú er gert.

Andspænis þessu fólki standa svo stjórnmálamenn, sem endasendast út í Kröfluvirkjun gegn aðvörunum vísindamanna. Stjórnmálamenn, sem koma á hitaveituskatti, er leiðir til hægari þróunar frá olíukyndingu en ella væri.

Einmitt á þessum áttunda tug aldarinnar hafa gífurlegar verðhækkanir á olíu gert Ísland að gósenlandi orkufreks iðnaðar. Þetta hafa stjórnmálamennirnir tregðast við að hagnýta, meðal annars af stjórnlausri hræðslu við erlent fé.

Það væri efni í mörg Dagblöð að rekja ávirðingar íslenzkra stjórnmálamanna annars vegar og afrek íslenzkra hugvitsmanna og lærdómsmanna hins vegar. Hér hafa aðeins verið rakin nokkur dæmi til að sýna, að misræmið er til.

Við þurfum ekki að brúa neina gjá tækni og þekkingar yfir til framtíðarinnar. Okkar hindrun er fyrst og fremst pólitísk. Það er í stjórnmálunum, sem við þurfum að koma okkur upp hugviti og hæfileikum eftir áratuga langa eyðimerkurgöngu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið