Matgæðingar landsins fara í hefðarhús landsins að smakka á list & lyst frá gestakokkum Food & Fun. Ég læddist samt rétt fyrir lokun í fyrradag til Jómfrúarinnar í Lækjargötu og gældi við fortíðarþrána. Fékk mér hálfa sneið af rækjum á fransbrauði með þúsundeyjasósu. Og heila sneið af pönnusteiktri og snarkheitri rauðsprettu á rúgbrauði með remúlaði. Rækjurnar á Jómfrúnni eru betri en rækjurnar heima hjá mér. Og Jómfrúin gefur heldur ekkert eftir í tímasetningum í steikingu. Rauðsprettan var dúnmjúk bakvið raspið. Þarna fékk ég heitan mat og snöggeldaðan mat. Ekki kalda skúlptúra með froðum.