Menn eru ekki sammála um, hvort stefni í 45% eða 55% verðbólgu á þessu ári. Öðrum kann að finnast svo lítill munur á þessum tölum, að ekki taki því að deila um þær. Báðar séu þær firnaháar og sýni, að allt sé hér á hverfanda hveli.
Munurinn á tölunum er þó sá, að lægri talan felur í sér hæfilega verðbólgu ársins, en síðari talan óhæfilega. Skynsamlegasta markmiðið í verðbólgustríðinu er nefnilega að minnka verðbólguna tiltölulega hægt, telja hana varlega niður.
Árangursrík leiftursókn gegn verðbólgu getur verið jafn hættuleg og verðbólgan sjálf. Næstum öruggt má telja, að hraðri verðhjöðnun fylgi atvinnuleysi, framtaksskortur og rýrnun lífskjara. Við getum ekki náð öllum markmiðum í senn.
Á gullöld viðreisnaráratugarins höfðum við 10% verðbólgu á ári og þótti óskaplegt. Núna er yfirleitt um 10% verðbólga á Vesturlöndum og þykir þar gífurlegt. Nú höfum við svo haft 50% verðbólgu í tvö ár og lifað hana af.
Ísraelsmenn búa við 120% verðbólgu og skrimta samt. Yfir 100% verðbólga hefur verið algeng á uppgangstímum í sumum ríkjum Suður-Ameríku. Því má spyrja, hvað við séum yfirleitt að agnúast út í verðbólguna, toppventil þenslu og framfara.
Eftir því sem vísitalning hefur aukizt, hefur dregið úr hinum illu áhrifum verðbólgunnar. Laun hafa lengi breytzt eftir vísitölu. Og í heilt ár hefur réttilega verið stefnt að því að vísitölubinda fjárskuldbindingar.
Því miður var það eitt fyrstu verka núverandi ríkisstjórnar að hindra skrefið, sem stíga átti í þessa átt 1. marz. Vonandi sér hún nú að sér, þegar komið er að nýju skrefi 1. júní. Verðtrygging fjárskuldbindinga þarf að nást.
Þegar svo er komið, að lán greiðast í upprunalegum verðmætum, er komið í veg fyrir félagslegt ranglæti, sem hingað til hefur kynt verðbólgubálið hastarlegar en nokkuð annað. Lánaspilling hlýtur að snarminnka.
Þá er aðeins eftir að vísitelja gengi krónunnar eða láta það fljóta frjálst til að ná sams konar jafnvægi í peningatilfærslum út á við og verðtryggingin aflar okkur í slíkum tilfærslum innanlands. Þá þurfa útflutningsatvinnuvegirnir ekki lengur að borga brúsa verðbólgunnar.
Verðtrygging fjárskuldbindinga og erlends gjaldeyris eru aðgerðir, sem hægt er að framkvæma og sem setja verðbólguna að verulegu leyti inn á hliðarspor, þar sem hún getur haldið áfram að rúlla, tiltölulega fáum til ama.
Hins vegar eru tilraunir stjórnvalda til að ráðast beint að verðbólgunni sem slíkri yfirleitt dæmdar til að mistakast. Þær byggjast nefnilega á þeirri óskhyggju, að unnt sé að ná andstæðum markmiðum í senn, halda fullri atvinnu og öðrum kostum þenslunnar, um leið og verðbólga minnki.
Eigi að síður eru slíkar tilraunir æskilegar. Og svo virðist sem á síðasta ári hefði átt að vera unnt að hafa meiri hemil á verðbólgunni án þess að spilla atvinnuástandinu. Sú ætti einnig að verða raunin á þessu ári.
Með því að stöðva útþenslu í opinberum rekstri og með aðhaldi á öðrum sviðum getur ríkisstjórnin komið verðbólgunni niður í 45% á árinu, sem væri hæfileg niðurtalning. En að óbreyttu stefnir hún því miður í 55% verðbólgu.
Hitt skiptir þó enn meira máli, að ríkisstjórnin gefist ekki upp á brautinni í átt til verðtryggingar fjárskuldbindinga innanlands og fari í alvöru að velta fyrir sér verðtryggingu útflutnings, það er visitalningu gengis krónunnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið