Sem hótel er KEA á Akureyri orðið dálítið lúið, en veitingasalurinn er í góðu lagi um þessar mundir. Sennilega er Hótel KEA fjórði bezti veitingastaður landsins á eftir Holti, Sögu og Versölum. Taka verður þó fram, að með vínveitingaleyfi mundu Stillholt, Hornið og Laugaás sennilega fara upp fyrir KEA.
Veitingasalurinn á KEA er gamaldags og að sumu leyti þreytulegur, en samt í aðra röndina vistlegur og rólegur. Þykka, rauða teppið á gólfinu er óslitið og temprar hávaða. Veggfóður er upp á miðja veggi og þar fyrir ofan hanga nútímamálverk, vel valin. Róleg og lágvær tónlist í bakgrunni magnar hina notalegu stemmningu.
Þjónustan á Hótel KEA var kunnáttusamleg og vingjarnleg. Meira að segja var víni rétt hellt í glös, sjaldgæf sjón hér á landi. Þjónninn sagði líka fyrirfram, hvað ekki væri til af fastaseðlinum, einnig sjaldgæf tillitssemi hér á landi. Að máltíð lokinni bar hann óumbeðinn á borð tannstöngla með mintubragði.
Súpa
Súpa dagsins var seljurótarsúpa, of þykk, en með girnilega ákveðnu seljurótarbragði, sem gerði hana góða. Með súpunni var borið fram heitt og mjúkt brauð. Súpan er innifalin í verði rétta dagsins, en kostaði 870 krónur sérpöntuð.
Smálúða
Rauðspretta var ekki til og féllu þar með fjórir réttir af fastaseðlinum. Þjónninn bauð í staðinn upp á smálúðu, sem hann viðurkenndi hreinskilnislega, að væri úr frysti. Venjulega er reynt að telja manni trú um, að smálúða og jafnvel ýsa heiti rauðspretta og sé örugglega ekki úr frysti.
Sem fryst var smálúðan auðvitað þurrari en fersk. Hún var eigi að síður bragðgóð, gufusoðin í hvítvíni og kryddi og framreidd með rækjum og sveppum í hvítvínssósu. Þetta var fremur ómerkileg hveitisósa. Umhverfis réttinn var ofnbökuð kartöflustappa. Ofan á var ferskt grænmeti, sneiðar af gúrku og tómati og steinseljugreinar, sem gerðu þetta að fallegum rétti. Verðið var 4.630 krónur.
Graflax
Graflaxinn var fremur óvenjulegur, örlítið reyktur á bragðið, nokkuð góður, en ekki eins og í Holti eða á Sögu. Rjómuð sinnepssósan var óvenju mild og óvenju lítið sæt, semsagt óvenju góð. Með graflaxinum fylgdi að venju ristað brauð með smjöri. Verðið var 3.200 krónur sem forréttur.
Steikt ýsa
Steikt ýsuflök St. Germain voru á matseðli dagsins. Þetta var ferskur og góður fiskur í mátulegum steikarhjúp. Með honum var borin fram mjög góð og mild béarnaise-sósa, hvítar kartöflur, tómatsneiðar og steinseljugreinar. Ennfremur tvær léttar og fínar tartalettur, önnur fyllt dósagrænmeti og hin dósaspergli. Verðið var 6.250 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.
Kjúklingur
Kjúklingurinn var á matseðli dagsins. Hann var ekki ofeldaður að ráði, meyr og góður. Með honum fylgdu hæfilega lítið soðin og stinn hrísgrjón, tómatsneiðar, ofsoðið brokkál og ferskar steinseljugreinar. Ennfremur góður maís, sem gæti hafa verið ferskur. Einnig hræðilegar, franskar kartöflur, brenndar og grautlinar. Loks karríkrydduð hveitisósa, sem var frambærileg sem slík. Verðið var 8.700 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.
Lambakótilettur
Lambakótilettur hongroise á fastaseðlinum voru ákaflega góðar, bleikar og meyrar, vel fituskornar. Ferskt rósakálið var gott, sem og blaðsalatið, steinseljan og tómatbátarnir. Frönsku kartaflnanna hefur áður verið getið. Óþarft var skinkujukk með mjög snörpu skinkubragði, sem spillti heildarbragði réttarins. Verðið var 6.450 krónur.
Turnbauti
Turnbauti béarnaise var hrásteiktur en blóðlaus, hæfilega lítið kryddaður og bragðgóður. Béarnaise-sósan var mild og mjúk, sem fyrr segir, með þeim betri, sem ég hef fengið hér á landi. Hrásalatið var óvenju gott, að mestu úr blaðsalati og tómatsneiðum og með sinnepssósu. Gulrætur og ristaður spergill voru úr dós. Frönsku kartöflurnar voru vondar, sem fyrr segir. Blómkálið var ofsoðið, en steinseljugreinarnar voru ferskar. Verðið var 8.950 krónur.
Jarðarberjafrómas
Jarðarberjafrómas var borið fram með þeyttum rjóma og dósaberjum, alveg frambærilegur eftirréttur, sem fylgdi í verði rétta dagsins.
Ís
Ís Melba með ferskju úr dós og jarðarberjasósu var ósköp venjulegur. Verðið var 1.170 krónur.
Kaffi
Kaffið á KEA var gott og borið fram með óblönduðum rjóma. Það var innifalið í verði rétta dagsins.
Vín
Vínlistinn á KEA er lélegur. Helzt er hægt að benda þar á Chablis og Bernkasteler Schlossberg af hvítvínum og Chateauneuf-du-Pape og Chianti Antinori af rauðvínum.
Í heild sýndi matreiðslan á KEA virðingu fyrir hráefnum. Maturinn var hóflega kryddaður og sósur voru yfirleitt mildar og léttar í maga. Ánægjulega mikið var af fersku grænmeti, en samt var of mikið af dósagrænmeti. Frönsku kartöflunum skulum við gleyma sem fyrst.
Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi á matseðli dagsins var 7.500 krónur. Meðalverð níu forrétta og súpa var 2.800 krónur, nítján aðalrétta 6.600 krónur og fjögurra eftirrétta 1.100 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 10.500 krónur og 12.500 krónur að hálfri vínflösku og kaffi meðtöldu.
Veitingasalur Hótels KEA er í svipuðum verðflokki og Versalir í Kópavogi, ódýrari en hótelsalir Reykjavíkur.
Hótel KEA fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sjö fyrir þjónustu, þrjá fyrir vínlista og sjö fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er sjö. Akureyringar geta því farið út að borða fyrir sanngjarnt verð.
Jónas Kristjánsson
Vikan