Það er vorhugur í einokunarsinnum þessa daga. Þeir sækja fram á mörgum sviðum í senn. Reynt er að koma á einokun í sölu eggja og innfluttra blóma og hindra notkun myndsegulbanda í fjölbýlishúsum.
Marga þreytta menn í ýmsum greinum dreymir um fordæmi Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, þar sem lífið líður áfram í ljúfum straumi án tillits til vandræðamanna á borð við neytendur.
Meirihluti Sambands eggjaframleiðenda stefnir nú að samstarfi við Osta- og smjörsöluna um að fá einokun á eggjasölu hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Undirtektir eru sagðar góðar.
Þessir menn eru þreyttir á sveiflum í framboði, sem hafa leitt til tímabundinna verðlækkana á eggjum. Það nístir þá inn að beini að sjá eggjakílóið selt á 995 krónur úr búðum í Reykjavík.
Þeir telja, að lífið yrði ljúfara við einokun í faðmi hins opinbera landbúnaðarkerfis. Þá gætu hinir hvimleiðu neytendur valið um egg á 2000 krónur kílóið eða það, sem úti … . Þá yrði líka auðvelt að skipuleggja akstur með umframegg á haugana, sællar minningar um breiður tómata, sem Sölufélag garð- yrkjumanna lét flytja á haugana fyrir nokkrum árum.
Undir einokun væri unnt að beita ýmsum slíkum aðgerðum til að hindra, að neytendur fái egg á sannvirði og tryggja þreyttum eggjaframleiðendum góðar svefnfarir og minnkandi magasár.
Ef neytendur farra að skræmta óþægilega mikið, er alténd hægt að fitja upp á hugmyndum um niðurgreiðslu eggja. Skattgreiðendur verða nefnilega seint spurðir ráða.
Skylt er þó að geta þess, að sumir eggjabændur skilja, að einokun með hækkuðu verði mundi draga mjög úr eggjakaupum neytenda og færa eggjabændum þannig annan vanda í stað hins.
Víðar eru þreyttir menn en í röðum eggjabænda. Blómaframleiðendum finnst innflutningur blóma of mikill, einkum fyrir stórhátíðir, og halda blómaverði í landinu of mikið niðri.
Þeir hafa samþykkt að biðja um einokun Sölufélags garðyrkjumanna á innflutningi blóma, svo að hægt sé að samræma markaðinn, það er að segja halda uppi verðinu á honum.
En það eru bara ekki væntanlegir einokunarkaupmenn, sem hafa sig í frammi þessa daga. Gömul og gróin einokunarstofnun er líka komin á stúfana. Það er Ríkisútvarpið.
Sú stofnun hefur grun um, að íbúar fjölbýlishúsa séu að fara inn á einokunarsvið útvarpsins með samstarfi um notkun eins myndsegulbands fyrir allar íbúðir hússins.
Enn er ekki ljóst, hvaða árangri einokunarsinnar ná á þessum þremur sviðum eggja, blóma og myndsegulbanda. En neytendur geta auðveldlega séð fyrir sér fordæmi Grænmetisverzlunarinnar.
Nokkrum sinnum hefur sannazt, að sú einokunarstofnun gerir vond kaup hjá vildarvinum úti í heimi og hefur í hvert sinn milljónir og milljónatugi af neytendum. Og þetta raskar ekki rónni.
Einnig hefur sannnazt, að sú einokunarstofnun fer með reglur um álagningu og kostnað sem henni sýnist, allt á kostnað neytenda. Þetta raskar ekki heldur rónni.
Grænmetisverzlun landbúnaðarins er frábært dæmi um sæluríki einokunarinnar, þar sem ekki þarf að hafa hinar minnstu áhyggjur af viðskiptavinunum og áhugamálum þeirra.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið