Viðstaddir útförina.

Greinar

Íslenzka ólympíunefndin hefur endanlega ákveðið að blanda saman íþróttum og stjórnmálum á þann veg að taka þátt í Moskvuleikjum þessa sumars. Hún hefði betur blandað þessu tvennu saman á hinn veginn, með því að sitja heima.

Íslendingar verða því viðstaddir andlát ólympíuleikjanna og ólympíuhugsjónarinnar í Moskvu. Það er út af fyrir sig tímamótaviðburður, en ekki af því tagi, er sé neinum viðstöddum til sóma. Þvert á móti er hann þeim öllum til minnkunar.

Það einstæða hefur gerzt, að ólympíuleikir eru haldnir í árásarríki, sem heyr grimmdarstríð gegn fátækri þjóð handan landamæranna, gegn sameinuðum Afgönum, og lætur sig ekki muna um að skjóta niður vopnlaus börn og unglinga á götum úti.

Alþjóða ólympíunefndin styður þetta árásarstríð með því að mæla með þátttöku í Moskvuleikjunum. Hið sama gera íslenzka nefndin og aðrar þær, sem fara að tilmælum alþjóðanefndarinnar. Ennfremur íþróttamennirnir, sem fara í austurveg.

Rétt er að taka fram, að á sínum tíma hefði verið óhugsandi að halda ólympíuleika í Bandaríkjunum, meðan þau ráku grimmdarstríð gegn fátæku fólki í Víetnam. Um öll árásarríki á að gilda, að þau geti ekki verið gestgjafar ólympíuleikja.

Ekki er hægt að saka ríkisstjórn Íslands um þátttöku í þessu hneyksli. Hún ræður ekki yfir íslenzku ólympíunefndinni. Og það var líka erfitt fyrir hana að draga til baka styrktarfé, sem áður hafði verið veitt.

Hins vegar hefði ríkisstjórnin haft meiri sóma af því að biðja íslenzku nefndina um að sitja heima með sitt lið eða af því að sýna á einhvern annan hátt vanþóknun sína. Slíkt hafa margar ríkisstjórnir réttilega gert.

Vonandi verða ekki margir til að styrkja stjórnmálaafskipti íslenzku ólympíunefndarinnar. Þar mundi skel hæfa kjafti, ef hún yrði að láta Rússa borga undir sig, svo sem ólympíunefndir ýmissa ríkja þriðja heimsins hafa gert.

Þeir, sem styrkja Moskvuferð Íslendinga, eru um leið óbeint að styðja árásarstríð Rússa í Afganistan. Þar á ofan styðja þeir, að í tilefni ólympíuleikja skuli Moskva vera hreinsuð öllu því fólki, sem þar hafði sjálfstæðar skoðanir.

Blindan í heimi íþróttanna er svo mögnuð, að í alvöru hefur verið stungið upp á, að handboltalið verði sent austur, ef önnur landslið sitja heima nógu mörg til þess að pláss myndist fyrir Ísland. Þetta eru eins og hræfuglar.

Íslenzkir ólympíufarar geta að þessu sinni ekki vænzt þess, að hugur þjóðarinnar fylgi þeim heill. Sumir munu hugsa sem svo, að þessir pólitísku stafkarlar mættu gjarna verða eftir þar eystra að leikjunum loknum.

Má þá vísa til þess, að bæði vanti hrausta menn í sovézka herinn í Afganistan og sem fangaverði á geðveikrahælum Sovétríkjanna. Með því að vekja slíkar hugsanir skaða Moskvufarar málstað íþróttagreina sinna hér heima.

Um 80 nefndir fara og um 50 sitja heima. Hinn fámennari félagsskapurinn hefði hæft Íslendingum betur, þjóð sem neitaði sér um stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum með því að lýsa ekki stríði á hendur hinum sigruðu í lok síðasta heimsstríðs.

15 Íslendingar ætla austur í umboði nefndar landsins til að taka pólitískan þátt í morði ólympíuhugsjónarinnar og til að vera viðstaddir útför þessara leikja, sem greinilega hafa gengið sér til húðar í núverandi mynd.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið