Snilldarleg heimska.

Greinar

Um 50%. meiri mjólk er framleidd hér á sumrin en á veturna. Það er á sumrin, sem myndast hinn mikli kúfur óseljanlegrar mjólkur. Þá er búið til úr henni duft, sem selt er til útlanda fyrir flutningskostnaði einum.

Á veturna er hins vegar rétt framleitt til daglegra þarfa þjóðarinnar. Sú framleiðsla er því augljóslega miklu minni þjóðfélagsvandi en sumarframleiðsla mjólkur. Aðgerðir gegn offramleiðslu hefði átt að miða við þetta.

Stjórnvöld lands og landbúnaðar hafa komið sér saman um kvótakerfi. Markmið þess er að draga úr offramleiðslu, svo að ekki þurfi að borga meira en átta og hálfan milljarð á ári í útflutningsuppbætur á verðlagi þessa árs.

Samkvæmt kerfinu er hverjum bónda skammtaður framleiðslukvóti. Fari hann yfir kvótann, fær hann lítið sem ekkert fyrir afurðirnar, sem umfram eru. Þetta kvótakerfi hefði vel mátt nota til að jafna mjólkurframleiðslu yfir árið.

Kvóta hvers bónda hefði mátt skipta á einstaka mánuði á þann hátt, að hann væri fyrst og fremst hvattur til að draga úr mjólkurframleiðslu á sumrin, en ekki hvattur til að draga úr henni á veturna, þegar ekki er offramleiðsla.

Slíkt kerfi hefði verið í heldur meira samræmi við lögmál markaðsins. Ef frjáls sala væri hér á mjólk, mundi hún stíga í verði á veturna og falla á sumrin. Þetta er einfalt dæmi um framboð og eftirspurn.

Hið nýja kvótakerfi hefur hins vegar þveröfug áhrif í reynd. Bændur hafa haldið áfram að framleiða mjólk eins og ekkert hafi í skorizt. Í haust munu þeir svo standa andspænis fullum árskvóta og verðlausri vetrarframleiðslu.

Þetta mun svo leiða til mikils niðurskurðar í haust. Vetrarframleiðslan verður þá minni en eftirspurnin. Niðurstaðan verður alvarlegur mjólkurskortur, samfara útgáfu skömmtunarseðla, alveg eins og í gamla daga biðraðanna.

Stjórnvöld lands og þjóðar hafa búið til kvótakerfi, sem ekkert dregur úr offramleiðslukúfi sumarsins, en býr til mjólkurskort á veturna. Svo segja sumir, að heimska þessara manna sé ekki takmarkalaus! Hún er það raunar.

Landsfeðrum okkar til hægri og vinstri dettur ekki í hug, að unnt sé að leyfa sjálfvirkum markaðslögmálum að minnka offramleiðsluna. Þeir eru harðlæstir í hugsunarhætti opinberrar miðstýringar, skömmtunar og kvóta.

Þeir hefðu þó getað líkt eftir markaðslögmálinu með því að láta mjólkurverð til bænda sveiflast eftir árstíðum. Þá hefðu þeir ekki heldur þurft neitt kvótakerfi, neina nauðung í garð bænda, neinn nýjan stein í fáránlegt landbúnaðarkerfi.

Þeir hefðu líka getað látið sér detta í hug, að hagkvæmara sé að framleiða mjólk í nágrenni þéttbýlis og kindakjöt í fjarlægari sveitum. Þeir hefðu getað stuðlað að slíku með því að taka tillit til flutningskostnaðar í verði til bænda.

Kvótakerfið í landbúnaði hefur farið illa af stað. Það mun fyrirsjáanlega valda bæði bændum og neytendum miklum búsifjum. Sennilega verður það að lokum sprengt og þá á kostnað skattgreiðenda. En það er víst ekki ný bóla í landbúnaði!

Þótt við reynum að vera sanngjörn, verður ekki hjá þeirri niðurstöðu komizt, að einstæða snilligáfu í heimsku þurfi til að búa til mjólkurskort ofan á gífurlega offramleiðslu. Það geta íslenzkir landsfeður og landbúnaðarfeður einir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið