Við verðum að þora.

Greinar

Hækkun olíuverðs í útlöndum hefur að vísu valdið okkur tímabundnum búsifjum. Meira máli skiptir þó, að hækkunin hefur varpað birtu á framtíð okkar. Hún hefur stóraukið verðgildi hinnar ónotuðu vatns- og varmaorku í landinu.

Um þessar mundir er til dæmis verið að loka álverum og kísiljárnverum, þar sem olía hefur verið notuð sem orkugjafi. Þau bera sig ekki lengur. Samt þarf heimurinn áfram ál og kísiljárn. Og hann gæti fengið meira af því héðan.

Kominn er tími til að átta sig á þessu og fara að huga að meiri stóriðju á Íslandi. Engin ástæða er til að sitja aðeins við skuggahliðar orkukreppunnar og neita sér um hinar björtu. Við höfum þegar beðið of lengi.

Við þurfum stóriðju til að afla gjaldeyris fyrir síhækkandi olíu og benzíni. Við þurfum stóriðju til að komast aftur í takt við lífskjör nágrannaþjóðanna. Með slíkum takti í lífskjörum treystum við bezt búsetu í landinu.

Auðvitað er stóriðja engin töfralausn. Við megum ekki gleyma öðrum atvinnuvegum, þótt við beinum sjónum okkar að stóriðju. Sjávarútvegur, almennur iðnaður og stóriðja eru þrír meiðar, sem eiga að vaxa samhliða í samlyndi.

Til þessa hefur sjávarútvegurinn verið okkar stóriðja. Við höfum því miður ofnýtt orkulindir hans og getum ekki reiknað með aukinni framleiðslu að sinni. Miklu frekar þurfum víð að draga úr nýtingunni til að hindra hrun fiskistofna.

Hinn almenni iðnaður hefur lengi verið öskubuska atvinnulífsins. Hann er ekki einn fær um að taka við, þar sem náttúran setur sjávarútveginum takmörk. Hann þarf mikinn tíma til að byggja upp framleiðni, er hæfi hornsteini.

Þess vegna þurfum við að greikka stóriðjusporin. Þar höfum við hálaunagrein, sem notar mikla þekkingu, hefur góð margfeldisáhrif í atvinnu og aflar gjaldeyris. Við höfum þegar reynslu af því, að þetta er rétt lýsing.

Við höfum líka lært af hinum bitru hliðum reynslunnar. Við höfum sniðið alla veigamikla vankanta af samningum okkar og samskiptum við stóriðjuverin. Nema einn. Við höfum ekki enn náð að semja um viðunandi orkuverð.

Í því efni var Grundartangaverið umtalsverð endurbót frá Straumsvíkurverinu. Ástæða er til að ætla, að í þriðju atrennu getum við náð orkuverði, er sé sanngjarnt báðum aðilum og taki tillit til breytinga á orkuverði í öðrum löndum.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lagði nýlega til, að við tvöfölduðum stóriðju á einum áratug. Þetta er varfærnislegt og hóflegt markmið. Hann benti líka á, að Íslendingar hefðu reynslu, bolmagn og lánstraust til að gera þetta sjálfir.

Jóhannes sagði einnig, að hagkvæmast væri að tvöfalda núverandi stóriðjuver. Það er rétt, en með fyrirvara þó. Við þurfum að hafa fleiri kosti, svo að við getum teflt skákina um orkuverð við hagstæðari og fjölbreyttari skilyrði.

Ef samið yrði um stækkun núverandi stóriðjuvera, þarf um leið að endurskoða orkuverð til eldri hluta þeirra. Þetta gildir einkum um álverið, sem býr við gersamlega úrelt orkuverð frá því löngu fyrir olíukreppu.

Við lifum á ótryggum tíma við vaxandi landflótta til betri lífskjarastaða og við mjög óvissa framtíð mikilvægustu fiskistofnanna. Það væri heimska við slíkar aðstæður að þora ekki að taka að nýju upp stóriðjuþráðinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið