Út af fyrir sig er hægt að þakka Seðlabankanum fyrir að hafa loksins áttað sig á eðli margfrægrar innlánsbindingar. Einnig er hægt að gagnrýna bankann fyrir að hafa árum saman reynt að láta líta svo út sem um stjórntæki í peningamálum væri að ræða.
“Eins og nú standa sakir hefur Seðlabankinn ekki yfir að ráða neinu áhrifamiklu tæki til þess að vega gegn utanaðkomandi þenslu, t.d. vegna óvenju mikilla gjaldeyriskaupa, þar sem innlánsbindingin er að fullu notuð til þess að fjármagna endurkaup.”
Þessi orð formanns bankastjórnar á ársfundi Seðlabankans eru auðvitað laukrétt. En þau eru ekki nýjar fréttir þeim, sem löngum hafa bent á þessa staðreynd og kvartað um, að bankinn sigldi undir fölsku flaggi í innlánsbindingunni.
Frá ómunatíð hefur Seðlabankinn barizt fyrir aukinni innlánsbindingu. Sú barátta hefur reynzt svo árangursrík, að nú krækir bankinn í 28 aura af hverri krónu, sem lögð er til ávöxtunar inn á banka landsins.
Jafnan hefur græðgi Seðlabankans verið varin með virðulegu hjali um, að nauðsynlegt sé að frysta fjármagn til að draga úr verðbólgu. Innlánsbindingin hefur jafnan verið aukin undir því yfirskini, að um stjórntæki væri að ræða.
Dagblaðið hefur margoft bent á, að svonefnd frysting væri engin frysting, heldur millifærsla, liður í viðleitni ráðamanna til að beina fjármagni þjóðarinnar til mismunandi arðbærra forréttindagreina í atvinnulífinu.
Með innlánsbindingunni hefur fé verið tekið af hálffrjálsum markaði og notað í sjálfvirkt kerfi endurkaupa á afurðavíxlum þeirra greina, sem eru í náðinni hjá stjórnvitringum þjóðarinnar, til að mynda landbúnaði.
Með innlánsbindingunni hefur meðal annars verið fjármögnuð birgðasöfnun til útflutnings á afurðum, sem seldar eru á verði, er tæplega stendur undir flutningskostnaði til útlanda og leggur ekki grænan eyri til innlends framleiðslukostnaðar.
Skiljanlegt er, að þriðja flokks stjórnmálamenn skuli vera hlynntir sjónhverfingum af þessu tagi. Hitt er alvarlegra, að Seðlabankinn, sem ekki þarf á atkvæðaveiðum að halda, skuli árum saman hafa stjórnað glæpnum.
En batnandi mönnum er bezt að lifa. Svo notað sé mál, sem hagfræðingar skilja, þá hefur öll magnaukning ræðu formannsins að þessu sinni farið í að játa, að innlánsbindingin væri í rauninni ekkert stjórntæki í peningamálum.
Í ræðunni segir réttilega: “… er nauðsynlegt að losa um hluta bindiskyldunnar, svo að hægt sé að beita henni sem almennu stjórntæki á sviði peningamála”. Enda hefur Seðlabankinn að undanförnu reynt að draga úr hinum sjálfvirku endurkaupum.
Þriðja flokks stjórnmálamennirnir hafa hamlað gegn þeirri viðleitni. Þeir hafa náð þeim árangri, að einungis eru komin til framkvæmda 1,5 prósentustig af hinni 3,5 prósentustiga lækkun endurkaupa, sem Seðlabankinn hefur stefnt að.
Auðvitað þarf að vera til kerfi endurkaupa á afurðavíxlum. En eins og formaður bankastjórnar segir, þarf að “færa þennan þátt lánastarfseminnar að verulegum hluta aftur í hendur innlánsstofnana.” Það er ekki auðvelt, en þó framkvæmanlegt.
Mestu máli skiptir, að hlutirnir séu jafnan nefndir sínum réttu nöfnum. Þess vegna ber sérstaklega að fagna því, að Seðlabankinn neitar nú frekari þátttöku í þeirri fölsun að kalla afurðalánin nauðsynlega frystingu í baráttu gegn verðbólgu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið