Fínimannsleikur.

Greinar

Varla er opnuð svo sýning á danskri framleiðslu í öðrum löndum, að Margrét, drottning Dana, sé ekki viðstödd. Hún er höfð í fremstu víglínu danskrar sölumennsku. Og það er ekki að ástæðulausu.

Þegar Margrét mætir, verða þjóðhöfðingjar og ráðamenn sýningarlandsins líka að mæta. Hið sama gildir um fjölmiðlana. Árangurinn eru myndir af drottningunni með danskar vörur í baksýn.

Þannig selja Danir smjör og listmuni og allt þar á milli. Þeir beita hyggjuviti sínu á þessu sviði sem öðrum. Og enginn þeirra telur fyrir neðan virðingu sína að taka þátt í þessu.

Danir hafa litlar auðlindir. Samt hefur þeim tekizt að byggja upp iðnað og velmegun. Lykillinn að þeim árangri er kostgæfni í sölumennsku á erlendri grund.

Sendiráð Dana eru önnum kafin í sölumennsku. Ráðherrar þeirra taka stundum þátt í þessu starfi. Jafnvel konungsfjölskyldan telur sér skylt að vera nánast í fullu starfi á þessu sviði.

Danir eru ekki einir um þessa stefnu. Hvarvetna er mikið unnið að sölumennsku í sendiráðum ríkja. Við höfum nýlegt dæmi af sölumannafundi fiskseljenda í Bandaríkjunum.

Sendiráð Kanada og Noregs áttuðu sig á, að nauðsynlegt var að sinna þessum mönnum, sem selja kanadískan og norskan fisk víðs vegar um Bandaríkin. Þau höfðu inni boð fyrir þá.

Sendiráði Íslands var bent á, að hér væri um að ræða hóp manna, sem skipti Ísland miklu máli. Þeir væru á endastöð lífsbaráttu þjóðarinnar. Þeir útveguðu gjaldeyrinn.

En sendiráðið hafnaði afskiptum af málinu. Líklega hefur því þótt fyrir neðan sína virðingu að bjóða til sín fisksölum. Sendiráð eru nefnilega stikkfrí í íslenzkri lífsbaráttu.

Við erum svo skyni skroppnir í þessum málum, að við höfum sérstakt ráðuneyti í utanríkisviðskiptum, svonefnt viðskiptaráðuneyti, sem er ekki í neinum formlegum tengslum við utanríkisráðuneytið.

Sendiherrar Íslands erlendis eru ekki í vinnu hjá viðskiptaráðuneytinu, heldur utanríkisráðuneytinu. Og vegna tilvistar hins fyrra telur hið síðara sig engum söluskyldum hafa að gegna.

Nærri allur tími íslenzkra sendiherra fer í sérkennilegan og hefðbundinn menúett sendiherra. Þegar þeir taka við störfum á nýjum stað, þurfa þeir að heimsækja hina hundrað sendiherrana og bjóða þeim á móti.

Utanríkisþjónusta okkar er hreinn og einfaldur fínimannsleikur. Fiskur er þar svo fjarlægur, að menn vita ekki sinu sinni, hvernig hann er á bragðið.

Samt búum við í svo fámennu þjóðfélagi, að við áttum okkur á, að það er sameiginlegt fyrirtæki. Allir verða að leggja hönd á plóginn, ekki bara þeir, sem stunda sjóinn og frystihúsin.

Ef ormur finnst í íslenzku fiskflaki í Bandaríkjunum, er hægt að rekja hann til stúlkunnar, sem hreinsaði þann fisk. Láglaunakonan ber ábyrgð á handverki sínu.

Fína fólkið ber hins vegar enga ábyrgð. Forsetaskrifstofan, forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið telja sig ekki vera málsaðila í velgengni og vanda íslenzkra útflutningsafurða.

Svo stöndum við allt í einu andspænis samdrætti í fisksölu í Bandaríkjunum. Frystigeymslur okkar, bæði þar vestra og um allt land, eru að fyllast. Verðhrun er hugsanleg afleiðing.

Ef þetta væri danskur fiskur, væri Margrét drottning komin vestur um haf til að láta mynda sig með fisk í baksýn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið