A þessu ári þvingar ríkið bændur til að minnka framleiðsluna, um leið og það hvetur þá til að auka fjárfestinguna. Það beitir stjórntækjum, sem stangast á. Annars vegar er kvótakerfið nýja og hins vegar styrkja- og lánakerfið gamla.
Kvótakerfið hóf göngu sína í ár. Þetta kerfi virðist munu leiða til minni framleiðslu á veturna, þegar hún er hæfileg fyrir, og til óbreyttrar framleiðslu á sumrin. þegar hún er nú 50% of mikil. Útfærsla kvótakerfisins er því vanhugsuð.
Dæmigert fyrir ráðamenn okkar er, að þeir búa til stjórnkerfi, sem er bæði í innra og ytra ósamræmi. Á föstudaginn var hér í leiðara fjallað um innra ósamræmið, sem mun leiða til meiri árstíðaskekkju í framleiðslunni en áður var.
Ytra ósamræmið er ekki síður alvarlegt. Kerfi til takmörkunar á framleiðslu búvöru er skellt ofan á eldra kerfi, sem stefnir eindregið að því að búa í haginn fyrir aukna framleiðslu. Styrkja- og lánakerfið helzt óbreytt.
Á þessu ári ver ríkið af skatttekjum sínum hálfum fjórða milljarði króna til beinna fjárfestingarstyrkja í landbúnaði. Og Stofnlánadeild landbúnaðarins ver svipaðri upphæð til fjárfestingarlána. Þetta er rífleg verðbólguhækkun milli ára.
Afleiðingin er sú, að nú er fjárfest í landbúnaði með sama hraða og áður. Búvélasalar hafa staðfest, að enginn bilbugur sé á vélakaupum til landbúnaðar. Bundið er meira fjármagn til að framleiða minni afurðir.
Það eykur verðbólguna og er í óþökk skattgreiðenda að styrkja framkvæmdir í grein, sem er að draga saman seglin. Því fé er ekki aðeins á glæ kastað. Því er beinlínis beitt gegn augljósum hagsmunum þjóðfélagsins.
Bændur hafa svo sjálfir bölið af þeim hluta framkvæmdafjárins, sem er lán. Þau þurfa þeir að endurgreiða, í verðtryggðri mynd, af minnkuðum afurðatekjum. Lánabyrðin verður stærri hluti af veltu þeirra. Afkoman versnar.
Segja má, að hver ráði því, hvort hann reisir sér hurðarás um öxl. En það er ábyrgðarhluti að hafa í frammi freistingar styrkja og lána, sem valda því, að menn gleyma morgundeginum og binda sér óskynsamlega skuldabagga.
Landbúnaðurinn er engan veginn eina dæmið um, að fyrirgreiðsla stjórnvalda getur leitt til verri afkomu. Hin miklu skipakaup á áttunda áratugnum eru í rauninni enn hrikalegra dæmi. Öll voru þau skip keypt á kostnað sjóða og á ábyrgð ríkis.
Síðan stendur sjávarútvegurinn andspænis óhóflegri sókn í fiskistofna. Hann stendur andspænis sífelldri fækkun leyfilegra veiðidaga, sem dugir þó ekki til að bjarga stofninum. Hann stendur hreinlega andspænis gjaldþroti á næstu árum.
Seint og um síðir sáu stjórnvöld að sér og fóru að draga ár freistingum til skipakaupa. Nú er þar á ofan verið að taka skip af frílista, gera skipakaup háð samþykki ríkisvaldsins. Og öllum er ljóst, að um annað var ekki að ræða.
Lærdómurinn af þessu nýttist ekki á öðrum sviðum. Þegar offramleiðsla óseljanlegrar búvöru sprengdi ríkissjóð, datt feðrum lands og landbúnaðar ekki í hug að draga úr freistingum til fjárfestingar í landbúnaði.
Í stað þess að byrja á byrjuninni var gripið til þess ráðs að neita að kaupa búvörur umfram hið skammtaða magn kvótakerfisins. Og þegar er ljóst, að þetta kerfi mun verða bændum, neytendum og skattgreiðendum þungt í skauti.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið