Endanleg uppgjöf.

Greinar

Sjálfstæðismenn eru endanlega búnir að glata voninni um Reykjavík. Forustumenn þeirra í borgarstjórn eru á leið í grænni haga á öðrum sviðum þjóðlífsins. Og eftirmennirnir eru ekki þeir bógar, að þeir endurheimti meirihlutann.

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, er hættur formennsku stjórnarandstöðunnar í Reykjavík. Hann hefur verið á þingi í tvö ár og er kominn á kaf í landsmálin. Sennilega verður hann ekki aftur í framboði til borgarstjórnar.

Birgir var um tíma einn af fáum mönnum, sem nefndir voru sem formannsefni Sjálfstæðisflokksins. Það var, þegar sú skoðun var uppi, að Geir og Gunnar yrðu að víkja úr forsæti fyrir sameiningartákni, er stæði utan við klíkur.

Nú virðist hins vegar sem Geir vilji halda stríðinu til streitu, fjarlægja Gunnarsmenn úr áhrifastöðum flokksins og halda sjálfur áfram formennsku. Og meðal Geirsmanna er Birgir talinn heppilegur varaformaður í stað Gunnars.

Eins og Birgir er Albert Guðmundsson líklegur til minni afskipta af borgarmálum. Hann er í framboði til forseta og situr á þingi. Og hann gaf ekki kost á sér við forustuskiptin í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

Margir sjálfstæðismenn höfðu trúað og vonað, að Ólafur B. Thors mundi vilja taka við formennsku stjórnarandstöðunnar í Reykjavík, þegar Birgir hætti. Hann var þriðji og síðasti bógurinn í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

En Ólafur gaf ekki kost á sér. Sagt er, að það sé vegna þess, að senn verði hann einn forstjóri Almennra trygginga og þurfi að helga fyrirtækinu krafta sína óskipta. Þetta hefur magnað svartsýni sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ólafur var í vetur eins og Birgir af sumum talinn heppilegt formannsefni í Sjálfstæðisflokknum sem almennt vel látinn utanklíkumaður. En vaxandi atvinnuskyldur Ólafs virðast hafa gert hann fráhverfan pólitískum frama.

Engan stjórnvitring þarf til að sjá vonleysið, sem hlýtur að grípa sjálfstæðismenn í Reykjavík, þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson, Albert Guðmundsson og Ólafur B. Thors sýna ekki áhuga á forustu í borgarstjórnarflokknum.

Davíð Oddsson er nú orðinn formaður stjórnarandstöðunnar í Reykjavík. Hann varð skrifstofustjóri borgarstofnunar, Sjúkrasamlags Reykjavíkur, fljótlega eftir að hann varð borgarfulltrúi. Nú er hann forstjóri þessarar stofnunar.

Þegar borgarfulltrúinn Kristján J. Gunnarsson var skipaður embættismaður borgarinnar, fræðslustjóri Reykjavíkur, þótti honum óviðkunnanlegt að halda áfram þátttöku í stjórnmálum borgarinnar. Hann hætti að vera borgarfulltrúi.

Úr því að Davíð hafði sem borgarfulltrúi þáverandi meirihluta aðstöðu til að verða embættismaður borgarinnar, átti hann að hætta í stjórnmálum borgarinnar eða einfaldlega neita sér um embættið. Kristján valdi, en Davíð ekki.

Þessi forsaga er sízt til þess fallin að blása lífsanda í baráttu sjálfstæðismanna fyrir endurnýjuðum meirihluta í Reykjavík. Það verður erfitt hjá embættismanni borgarinnar, þegar hann hyggst fylla lið sitt eldmóði.

Leit forustumanna borgarstjórnarflokksins í grænni haga og hin róttæku forustuskipti segja áhorfendum þá sögu, að sjálfstæðismenn í Reykjavík eygi ekki lengur von um afturkomu meirihlutans.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið