Gott hefði verið, að síamstvíburar atvinnu- og verkalýðsrekenda hefðu mælt með friðarsamningi við útlandið. Hefðu auðveldlega getað bent á augljósa hagsmuni umbjóðenda sinna af friðarsamningi. Veldur meiri lánum á betri vöxtum, meiri framkvæmdum og meiri atvinnu. En þeir kusu heldur að tala í hótunum. Vilhjálmur Egilsson, talsmaður síamsbræðra, segir ekkert verða samið um kaup, ef friðarsamningurinn verði felldur. Alveg eins og hann talar í hótunum um kvótagreifana. Verði þeir ekki verndaðir, verði ekki samið um kaup og kjör. Boðskapur af slíku tagi er því miður ekki traustvekjandi.