Viðskiptahagsmunir réðu.

Greinar

Sumir kölluðu það viðskiptahagsmuni. Aðrir kölluðu það atvinnuöryggi. Þessi orð eru tveir fletir á sama hlutnum, hagsmunum. Útvarpsráð bjó til síðara orðið til að geta sameinazt í ritskoðunarstefnu gegn Dauða prinsessu.

Yfirlýsing útvarpsráðs um bann kvikmyndarinnar er sérkennilega ósvífin. Þar segir m.a. “að markaðsaðstæður eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og hagsmunahópa ráði alls ekki efnisvali sjónvarpsins”.

Útvarpsráð byggir bannið á skarpri aðgreiningu viðskiptahagsmuna annars vegar og atvinnuhagsmuna hins vegar. Í raunveruleikanum eru þessi skörpu skil ekki til. Þetta eru sömu hagsmunirnir, séðir frá tveimur hliðum.

Hér eftir munu fyrirtæki í ritskoðunarhug snúa sér til starfsfólks síns og beita því fyrir sig. Í flestum tilvikum mun starfsfólkið sjá hina sameiginlegu hagsmuni og veita lausnarorðið, sem útvarpsráð bíður eftir: “Atvinnuöryggi.”

Eftir lélegar útskýringar útvarpsráðs á banni kvikmyndarinnar er hætt við, að ráðið sé varnarlaust gagnvart viðskiptahagsmunum í framtíðinni. Til dæmis gæti umfjöllun um varnarliðið skaðað “atvinnuöryggi” starfsfólks í Ameríkuflugi.

Marklausar með öllu er dylgjurnar um öryggisleysi íslenzkra flugliða í Saúdi-Arabíu. Enginn flugufótur er fyrir þessum dylgjum, sem í sjálfu sér eru verra skítkast í garð Saúdi-Arabíu en hin umdeilda kvikmynd er.

Úr því að Flugleiðum tókst að komast upp með þetta, getur þeim tekizt að komast upp með annað. Og fleiri fyrirtæki gætu hugsað sér að komast á bragðið. Hvað með hagsmuni starfsfólks Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar?

Útvarpsráð tók afstöðu með hagsmunum og gegn tjáningarfrelsi. Þeirri staðreynd verður ekki útrýmt með sjónhverfingum eða orðaleik. Útvarpsráð hunzaði hugsjón, sem því er einmitt ætlað að gæta. Ákvörðun ráðsins var röng.

Það er svo aukaatriði í málinu, að Dauði prinsessu er stórgölluð mynd. Heppilegast hefði verið að láta fylgja sýningu hennar umræðuþátt, þar sem unnt hefði verið að útskýra kosti hennar og galla, fordóma hennar og falsanir.

Dauði prinsessu er leikin kvikmynd, sem siglir undir fölsku flaggi heimildarmyndar. Af ásettu ráði er reynt að fá áhorfendur til að halda, að þeir séu að horfa á raunveruleika, þótt þeir eigi ef til vill að vita betur.

Útvarpsþátturinn lnnrásin frá Mars er frægasta dæmið um, hvernig villa má um fyrir fólki, þegar leikið efni er sett fram sem raunveruleiki. Þessi grein fjölmiðlunar getur hæglega orðið óheiðarleg. Svo er um Dauða prinsessu.

Einnig er kvikmyndin mörkuð vestrænni einsýni. Höfunda hennar skortir skilning á siðum og venjum í öðrum heimshornum. Kvikmyndin afbakar og afflytur siði Múhameðstrúarmanna. Hún er full af fordómum.

Dauði prinsessu er ekki aðeins villandi og fordómafull. Hún er líka langdregin og leiðinleg kvikmynd. Hún hefði ekki spillt hugarfari Íslendinga, ef hún hefði verið sýnd í fylgd með umræðuþætti, þar sem hún hefði verið gagnrýnd.

Með banninu hefur útvarpsráð hins vegar ákveðið, að viðskiptahagsmunir fyrirtækja og hagsmunahópa geti ráðið efnisvali sjónvarpsins. Samt er útvarpsráð ekki skipað til að gæta slíkra hagsmuna, heldur tjáningarfrelsis.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið