Mesti slátrari nútímans var tekinn fastur í Serbíu í gær og verður sendur stríðsglæpadómstólnum í Haag. Aðgöngumiði Serbíu að Evrópusambandinu er nú loksins tilbúinn eftir sextán ára leit. Ratko Mladic hershöfðingi stýrði mestu óhæfuverkum Serba í Bosníu, þar á meðal útrýmingunni í Srebrenica árið 1995. Réttlætið náði loksins í skottið á blóðþyrsta skrímslinu, þegar það var orðið gamalt og þreytt og handlamað af heilablóðfalli. Mladic hefði ekki getað verið svona lengi í felum, ef hann hefði ekki notið stuðnings krumpaðs almennings. Nú er sú saga að baki og Serbía getur gengið í samfélag Evrópu.