Unesco

Umræðan
Unesco

Rosemary Righter
Whose news? 1978

Stjórnmálamenn telja fréttir vera það, sem þjónar markmiðum samfélagsins eins og þeir skilgreina þau. Leiðtogar í þriðja heiminum telja frjálsa fjölmiðlum ekki vera almennt æskilega, þótt hún styðji mannréttindi gagnvart ríkisvaldinu, eins og þingbundið lýðræði og sjálfstætt dómsvald gera líka.

Leiðtogar í þriðja heiminum telja mikilvægara, að þjóðir þeirra finni sameiginlega rödd sína, heldur en að hvetja til einstaklingshyggju og andmælafrelsis. Þeir telja frelsi vera fölsun, sem hafi gert hinum ríku og voldugu kleift að þvinga skoðunum sínum og markaðshagkerfi upp á viðkvæm ríki.

Valdshyggjuhneigðar ríkisstjórnir þriðja heimsins hallast að samþættingu mannréttinda og beina geiri sínum gegn pressunni. Áður sögðu þær, að þriðja heims ríki væru of brothætt fyrir frjálsa pressu, en nú segja þær, að frjáls pressa sé óæskileg. Hún eigi að styðja ríkisstjórnina, ekki ögra henni.

Gildar ástæður eru fyrir gagnrýni á frammistöðu vestrænna fréttastofa og nákvæmni vestrænna fréttaritara. Og eðlilegt er að gremjast, að fréttir frá viðkomandi landi séu sagðar af útlendingum. En lausnir vandans eru lausnir valdshyggjunnar, andstæðar rétti borgara ríkisins til að fá fréttir.

Ríkisstjórnir eru tæpast starfhæfar nema þær lifi í umhverfi frjálsrar fjölmiðlunar, þar sem þeim berast skilaboð til baka úr samfélaginu. Pressan er fulltrúi margra radda og það er eitt mikilvægasta gildi vestræns lýðræðis, að svo sé. Til dæmis segja fréttir frá minnihlutahópum og skoðunum þeirra.

Skoðun ríkisstjórna í þriðja heiminum er, að fréttir séu auðlind þjóðarinnar og eigi að þjóna þróunarhagsmunum hennar með því að hervæða almenningsálitið. Á þann hátt verða upplýsingar að eign ríkisins, tengillinn að ofan frá valdhöfunum niður til almennings í þjóðfélaginu.

Þar með losni slíkar þjóðir við Daily Beast, æsifréttamennsku, sem höfði til smekks fólk fyrir skemmtun og slæmar fréttir. Með því að ríkið hervæði fréttirnar verði þær frjálsar, frjálsar til að efla hagsmuni þjóðfélagsins í heild. Vestræn sjónarmið eru önnur, ekki tengd pólitískum hagsmunum.

Stundum hefur verið mikil barátta í UNESCO og fleiri fjölþjóðastofnunum fyrir því, að fjölmiðlar í forsjá ríkisins öðlist meiri viðurkenningu á kostnað hefðbundins prentfrelsis. Vestrænar ríkisstjórnir stinga við fótum eins og í ýmsu öðru, sem leiðtogar þriðja heimsins telja vera honum til framdráttar.

Þrjár röksemdir eru notaðar gegn frjálsri pressu. Hún er of voldug, þrengir sér víða á áhrifamikinn hátt. Hún hefur framandi sjónarmið, sem hún reynir að troða upp á þjóðir, sem eru að reyna að finna sjálfar sig. Og hún hefur ekki þau einkenni nákvæmni og óhlutdrægni, sem hún þykist nota.

Sú staðreynd, að prentfrelsi er skilgreint í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og stofnskrá UNESCO, svo og í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, er bara arfur frá yfirburðum vestrænna ríkja eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Í rauninni verji þessi plögg vestræna yfirburði og séu því marklaus.

Þeir, sem halda þessu fram, eru fulltrúar ríkisstjórna, sem nota sömu forsendur þjóðmenningar til að auka ríkisafskipti og þagga niður í stjórnarandstöðu og óþægilegum minnihlutahópum. Þeir beina geiri sínum einkum að fjórum fjölþjóðlegum fréttastofum, AP og UPI, Agence France Presse og Reuters.

Í fjölþjóðlegri yfirlýsingu valdhafa þriðja heimsins segir, að meirihluti þjóða heims sé dæmdur til að vera óvirkir viðtakendur upplýsinga, sem komi frá fáum miðstöðvum. Þar með sé verið að dæma ríki þriðja heimsins til ólæknandi ósjálfstæðis á grundvelli efnahags og tæknilegra yfirburða vesturlanda.

Ríkisstjórnum í þriðja heiminum finnst óhugsandi, að vald vestrænnar fréttamiðlunar sé ekki notað í þágu illra sjónarmiða heimsveldanna. Þeir vita, hvernig fjölmiðlun er í þeirra eigin löndum og gefa sér, að hún sé eins á vesturlöndum, tæki í höndum ríkisstjórna til að gæta erlendra hagsmuna.

Um tíma höfðu ráðamenn í Indlandi forustu um að reyna að koma á fót neti fréttastofa í þriðja heiminum, sem gætu sameiginlega haldið uppi samkeppni við vestrænu fréttastofurnar. Það tókst ekki, af því að fólk vildi ekki kaupa áróður valdshyggjustjórna undir yfirskyni fréttaflutnings.

M’Bow, sem eitt sinn var forstjóri UNESCO, sakaði fjölþjóðlega fréttamiðla um að verja óbreytt ástand heimsins og skaða menningarlíf og efnahagslíf þriðja heimsins og þrengja að rétti hans til fullveldis. Núverandi einræði vesturlanda á þessu sviði sé í andstöðu við nýja skipan efnahagsmála í heiminum.

Í senn eru vestrænar fréttastofur sakaðar um að vera verkfæri nýlendusinnaðra stjórnvalda í vestrinu og sakaðar um að vera stjórnlausir gróðapungar. Þær velji fréttir til að sá spennu og ofbeldi í þriðja heiminum og þegi hins vegar um það, sem vel sé gert í þeim heimshluta. Þær gefi skakka mynd.

Af 559 starfsmönnum AP í löndum utan Bandaríkjanna eru 478 ekki bandarískir ríkisborgarar. Því er ekki hægt að halda fram, að starfsmannastefna fréttastofunnar miðist við bandaríska hagsmuni. Því er þá haldið fram, að starf þeirra miðist við vestræn áhugamál, sem séu önnur en áhugamál þriðja heimsins.

Alvarlegasta ásökunin á hendur fjölþjóðlegu fréttastofunum er, að þær líti framhjá heilum heimshlutum og líti eingöngu á iðnvæddu ríkin. Þær tali til dæmis um olíukreppu, ef hún kemur við ríku löndin, en minnist ekki á olíukreppu, ef hún kemur aðeins niður á löndum þriðja heimsins.

Sagt er, að einungis 10-30% alþjóðafrétta hafi gildi í þriðja heiminum. Eru þó flestar fréttastofur með staðbundna dreifingu frétta á mörgum tungumálum. En það kemur líka í ljós, að því er ekki vel tekið, þegar augu fréttastofanna beinast að þriðja heiminum, til dæmis fréttir af óstjórn og hungri.

Krafa ríkisstjórna í þriðja heiminum er í rauninni ekki um auknar fréttir frá þriðja heiminum, heldur um aukningu góðra frétta, sem á Vesturlöndum væru kallaðar áróður. Krafan er í rauninni um að fá aðgang að málpípum eins og tíðkuðust í heimi fjölmiðla fyrr á öldum.

Indira Gandhi, sem eitt sinn reyndi að koma á einveldi í Indlandi, hefur sakað ríku þjóðirnar um að reyna að sýna fram á, að allt sé í óreiðu í spilltum þriðja heimi til að gefa óhagstæðan samanburð við gömlu og góðu tímana, þegar nýlenduveldin réðu öllu í Indlandi og þriðja heiminum.

Krafa valdhafa þriðja heimsins er, að fréttastofurnar ráði aðeins heimamenn til fréttaflutnings og að þrengt sé svigrúm þeirra til að segja frjálsar og óháðar fréttir. Jafnframt á stofnun fréttastofu þriðja heimsins að gefa ýmsum ríkisstjórnum færi á að banna aðgang vestrænu fréttastofanna.

Ef þessar kröfur næðu fram að ganga, er ljóst, að afleiðingin yrði minni og lakari fréttaflutningur frá þriðja heiminum og að minna mark yrði tekið á honum. Það er ekki tekið út með sælunni að fara þessa leið til að hindra svokallaðar vondar fréttir í að berast frá löndum þriðja heimsins.

Ekki er hægt að ásaka vestrænar fréttastofur fyrir of lítinn áhuga á þriðja heiminum. Viðskiptavinir þeirra eru einkum á vesturlöndum. Þar vilja menn fá upplýsingar fyrir peningana sína og munu ekki sætta sig við að kaupa áróður í stað upplýsinga. Fréttastofa þriðja heimsins er því dauðadæmd.

Í rauninni gætu alþjóðlegu fréttastofurnar pakkað saman öllu starfi sínu í þriðja heiminum og einbeitt sér í staðinn að ríku löndunum. Þær mundu ekki verða fyrir fjárhagslegu tjóni af þessu. Nánast allir viðskiptavinirnir mundu halda áfram að skipta við þær. Ögrunin gegn þeim er því ekki markviss.

Associated Press segir, að 1% af tekjum sínum komi frá þriðja heiminum og 5% af útgjöldunum fari þangað. Við slíkar aðstæður er ekki hægt að búast við, að samkeppni frá þriðja heiminum muni ná árangri, þótt reynt verði að halda þar áróðri stjórnvalda í skefjum.

Ríkisstjórnir þriðja heimsins geta ekki notað núverandi fréttastofur til að gefa umheiminum gerilsneydda mynd af sér, né heldur geta þær notað eigin net fréttastofa í sama skyni. Í staðinn reyna þær að loka sem mest fyrir upplýsingaflæðið á vegum fréttastofa af vesturlöndum.

Í vestrænum blöðum tala stjórnmálaflokkarnir saman án þess að hittast, og hlusta hver á annan. Það eru ekki skoðanir blaðamanna, sem fólk sækist eftir, heldur markaðstorg skoðana af ýmsu tagi. En mikill meirihluti Bandaríkjamanna nær í fréttir sínar úr blöðum fremur en úr sjónvarpi.

Þjónusta blaðanna við erlendar fréttir hefur minnkað, bandarískum fréttariturum erlendis hefur fækkað. Áhugamál lesenda eru ekki í þriðja heiminum og því hefur minnkað áhersla á fréttir þaðan. Einnig hafa komið til sögunnar sjónvarpsfréttir, sem eðli málsins samkvæmt eru miklu minni en blaðafréttir.

Meðallæs maður getur lesið 24.000 orð á tímann, en ekki hlustað nema á 6.000 orð. 30 mínútna sjónvarpsfréttir jafngilda einum og hálfum dálki í dagblaði. Að svo miklu leyti sem fólk reiðir sig á sjónvarpsfréttir fremur en dagblaðafréttir eru enn minni líkur á, að fréttir komi úr þriðja heiminum.

Til viðbótar fjárhagslegum þrýstingi markaðarins kemur tvennt til viðbótar. Fréttaöflun er mjög dýr í þriðja heiminum og víða setja stjórnvöld þröskulda á leið fréttaritara eftir upplýsingum. Hvort tveggja fælir vestræna fjölmiðla frá umfjöllun um þriðja heiminn.

Blöðin geta ekki þvingað áhuga á þriðja heiminum upp á lesendur, sem hafa áhuga á nærtækari málum heima fyrir og eru þar að auki sumir pirraðir út í þriðja heiminn fyrir að kenna arðráni um vandamál sín í stað þess að tengja saman vinnusemi og lífsskilyrði.

Menn í þriðja heiminum virðast eiga erfitt með að greina milli frétta og skoðana og eiga erfitt með að átta sig á, að gagnrýni á þriðja heiminn er ekki áhugamál dagblaða, sem birta miklu meiri gagnrýni á eigin stjórnvöld. Ef menn skilja ekki vestræn gildi, er ekki hægt að tala mikið saman um vandann.

Þriðji heimurinn leitar að annarri sjálfsvitund, sem felur í sér að hafna vestrænum fyrirmyndum í efnahag, stjórnmálum og menningu. Þar trúa menn líka fullyrðingunni um, að ríku löndin stýri þeim og arðræni. Úr þessu andrúmslofti kemur krafan um meðalveg milli prentfrelsis og ritskoðunar.

Fréttastofa þriðja heimsins átti að vera skipulögð af Tanjug, hinni opinberu fréttastofu Júgóslavíu. Hún átti að bætast við vestrænar fréttastofur, en varð ekki að neinu. Ljóst var, að flest ríki þriðja heimsins ætluðu að nota tækifærið til að koma á framfæri áróðri undir yfirskyni frétta.

Samkvæmt yfirlýsingu leiðtoga þriðja heimsins um nýskipan fjölmiðlunar felur fullveldi ríkja þriðja heimsins í sér rétt ríkisstjórna þeirra til að eiga fjölmiðlunina. Takmarka átti aðgang vestrænna fjölmiðla og setja fram kröfu um, að vestrænir fjölmiðlar birtu í staðinn áróður stjórnvalda.

Ef markmið leiðtoga þriðja heimsins hefðu tekist, hefði almenningur í löndum þeirra misst aðgang að alvörufréttum og fengið áróður í staðinn. Fólk hefði auðvitað ekki trúað áróðrinum. Því hefðu fréttir verið leystar af hólmi af orðrómi og kjaftasögum. Nýskipan fjölmiðlunar hefði ekki tekist.

Þriðji heimurinn hefur einnig gert kröfu um að fá aðgang að vestrænum fréttastofum, sem verði skyldaðar til að breiða út svargreinar þriðja heimsins við fréttum þeirra, svo og að stofnaður yrði alþjóðadómstóll fjölmiðlunar og fjármagni veitt til að efla fjölmiðlunarfullveldi ríkja.

Um tíma datt Unesco inn á þessa línu og taldi jákvætt, að ríkisstjórnir skiptu sér af fjölmiðlun í því skyni að efla menningarlegt fullveldi sitt. Með samræmdu átaki vesturlanda tókst að hindra þessa þróun og skipta um forustumenn í samtökunum. Frá því um 1980 hefur krafa þriðja heimsins legið niðri.

Tanzanía gekk einna lengst í stefnu þriðja heimsins, setti upp fréttastofu, sem fékk einkaleyfi á fréttum í landinu. Enginn aðili annar mátti safna þar fréttum eða dreifa þeim. Erlendir blaðamenn þurftu sérstakt leyfi stjórnvalda. Þetta var að sjálfsögðu mjög svipað kerfi og í Sovétríkjunum.

Það er mikill misskilningur, að upplýsingastofur séu fréttastofur og að upplýsingafulltrúar séu blaðamenn. Markmið blaðamanna er ekki að byggja upp þjóðir, heldur að segja sannleikann. Enda fór svo, að allt dæmið féll um sjálft sig og fréttstofa þriðja heimsins tók aldrei til starfa.

Málið er að fámenn yfirstétt hefur samsæri um að takmarka frelsi fjöldans í nafni fjöldans, sem þeir vænta þess að geta stýrt meira. Almenningur er sveltur að upplýsingum og snýr sér í auknum mæli að vestrænu útvarpi. Svo mikið er orðið um slíkar sendingar, að erfitt er að trufla þær.

Rosemary Righter
Whose news? 1978

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé