Fornkristni í Hreppunum

Veitingar

Við þurfum ekki lengur að éta ketsúpu eða saltkjöt í Hreppunum. Höfum fengið heimsmenninguna í æð. Eþíópska veitingahúsið á Flúðum býður puttamat á 1900 krónur. Á Menelik fást víðar pönnukökur með engifer- og kardimommu-krydduðu hakki, kotasælu og grænmeti. Við snæðum með puttunum, paprikusósuna líka. Eftir matinn er kaffið brennt og malað að hætti Eþiópíu. Gott kaffi, enda er Eþiópía elzta kaffilandið. Þar og í Kenýa er líka uppruni mannkyns. Því er hátíðlegt að fá sér snæðing í þessari fornkristnu siðmenningu. Í samanburði við hverfi 101: Eitt núll fyrir landsbyggðina og okkur sveitavarginn.