Hingað til hefur endurgreiðsla skulda verið hornsteinn hins fjölþjóðlega fjármálakerfis. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur alltaf sett á oddinn, að skuldir verði greiddar. Lengja megi í hengingarólinni, en ekki slá af kröfum um endurgreiðslu. Nú stendur sjóðurinn andspænis Grikklandi, þar sem þjóðin segir: Við borgum ekki. Svipað almenningsálit magnast í Portúgal, á Spáni og víðar. Hér á landi voru aðstæður þær, að ríkið gat hreinlega ekki tekið ábyrgð á bönkunum. Erlendir lánveitendur töpuðu því þúsund milljörðum á Íslandi. Nú má sjá, að þeir muni tapa enn meira á Grikklandi og síðan víðar.