Hagfræðingur Bændasamtakanna fór heljarstökk í miðri málsgrein í viðtali í sjónvarpsfrétt um tollfrjálsan innflutning búvöru. Sagði hann mundu leiða til verðlækkunar innlendrar búvöru um fimm milljarða á ári. Landbúnaðurinn yrði að lækka verð um þetta til að standast samkeppnina. Jafnframt tókst hagfræðingnum að segja hagsbót neytenda óvísa, því að verzlanir mundu hirða mismuninn. Geri þær það, þarf landbúnaðurinn ekki að hækka verð. Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn. Ekki er von, að menn hafi mikið álit á hagfræðingum, sem framleiða marklausar skýrslur eftir pöntun.