Þótt hinn treggáfaði drottningarmaður í Bretlandi sé andvígur vindmyllum, er ekki þar með bókað, að þær séu frábærar. Þeir, sem hafa ferðast um Kastilíu, hafa séð slík mannvirki á fjallstindum. Meiri sjónmengun er tæpast hægt að hugsa sér. Landsvirkjun hyggst reisa vindmyllur milli Búrfells og Sigöldu. Vonandi fær sú hugmynd tilhlýðilega skoðun viðeigandi eftirlitsaðila. Ef til vill falla vindmyllur inn í íslenzkt landslag. Nauðsynlegt er samt að kanna umhverfisáhrifin. Of oft hefur verið hlaupið í virkjanir til að framleiða mjög svo tímabundna atvinnu. Án þess að huga neitt að umhverfi eða arðsemi.