Fyrir aldarfjórðungi fórum við hjónin að fara langar sumarferðir. Kynntumst þá fornri og sérstæðri tilvist, sem felst í að hafa hestinn fyrir heimili og komast í nýjan haga og nýtt vatnsból að kvöldi. Urðum heilluð af þessum lífsstíl. Einnig hafa kort alltaf verið dálæti mitt. Ég get skoðað kort eins og aðrir lesa skáldsögur. Heillaðist af dönsku herforingjaráðskortunum af Íslandi. Þau eru fegurstu kort, sem ég hef séð. Síðan komu til sögunnar GPS-leiðsögutæki, sem auðvelduðu ferðir og treystu öryggi fólks á ferðalögum. Samanlagt var þetta rótin að nýrri bók minni: “Þúsund og ein þjóðleið.”