Ventill á suðukatli

Punktar

Frábært er, að byggingamenn fái vinnu í Noregi, þegar timburmenn segja til sín eftir framkvæmdafyllerí. Geti farið þangað vegna fjölþjóðasamstarfs, sem gerir ráð fyrir rennsli á vinnuafli milli landa. Þjóðrembingar mættu minnast slíkra jákvæðra hliða á fjölþjóðlegu samstarfi. Hér virkar Noregur eins og ventill á suðukatli. Hleypir utan þeim, sem rúmast ekki í bili í bransanum á Íslandi. Allt samstarf við útlönd er þessu marki brennd. Við kaupum vöru frá útlöndum og seljum þangað vöru. Allt byggist þetta á fjölþjóðasamningum á borð við fríverzlunarsvæði og Evrópusambandið. Við erum ekki ein í heiminum.