Fyrir fólkið gegn kerfinu.

Greinar

Komið hefur í ljós, að Hitaveita Reykjavíkur ofmat í fyrra heitavatnsnotkun þrettán manna úrtaks um tæp 36%. Náði hún sér þannig í vaxtalaust lánsfé frá neytendum og endurgreiddi það síðar í mjög svo verðrýrðum krónum.

Ef úrtakið sýnir rétta mynd af heildinni, hefur Hitaveitan með þessum hætti haft samanlagt af neytendum á einu ári 360 milljónir gamalla eða 3,6 milljónir nýrra króna í verðlagsmismun. Þetta geta ekki talizt smáupphæðir.

Tölfræðin segir, að 36% ofmat hjá 13 neytendum geti ekki verið tilviljun. Hlutfallstalan er að vísu ekki nákvæm í svona litlu úrtaki. Í raun kann svindlið að nema meira eða minna en 3,6 milljónum nýkróna, en er samt svindl.

Gísli Jónsson, prófessor og stjórnarmaður í Neytendasamtökunum, skýrði nýlega frá þessu máli í kjallaragrein í Dagblaðinu. Þetta er enn eitt af mörgum dæmum hans um fjárheimtu embættismanna með brotum á lögum og reglugerðum.

Eitt grófasta dæmið um frekju og hofmóð opinberra einokunarstofnana er Rafveita Hafnarfjarðar. Í prófmáli dæmdi Hæstiréttur hana til að endurgreiða einum neytanda ólöglega afturvirka gjaldtöku, en án árangurs.

Í stað þess að lúta niðurstöðu prófmálsins og endurgreiða öllum hinum neytendunum hina sömu ólöglegu afturvirkni, lét Rafveitan þetta sem vind um eyru þjóta. Og þúsund neytendur geta ekki höfðað þúsund prófmál.

Umsvifamesta dæmið er svo Póstur og sími. Þar gefa menn að vísu ekki skít í Hæstarétt, en eru alveg ótrúlega lagnir við að hafa fé af almenningi á ólöglegan hátt. Um það hefur Gísli birt nokkur dæmi í kjallaragreinum.

Að opinberri venju dundar Síminn við ólöglega afturvirkar hækkanir. Að auki er hann sérlega laginn við að innheimta ólögleg afnotagjöld af aukabúnaði og ýmis rekstrargjöld, sem áður hafa verið innheimt með öðrum hætti.

Stórfelldast framtak Símans á þessu sviði er tilraun hans til að koma á skrefatalningu símtala á Reykjavikursvæðinu, þrátt fyrir orðalag þingsályktunartillögu frá 28. marz 1974 og lög frá 13. maí 1977.

Áðurnefnd Hitaveita Reykjavíkur hefur reynt að neita að selja mönnum heitt vatn, þótt hún megi sem einokunarstofnun ekki misnota aðstöðu sína með svo grófum hætti, samkvæmt athugun Gísla á lögum og reglugerðum.

Þá hefur hann bent á, að Tollstjóri fer rangt með lög og reglur með því að áætla toll af ókeypis ábyrgðarviðgerðum í útlöndum og með því að innheimta toll af vörum, sem týnzt hafa. Þannig má rekja stofnanir hverja af annarri.

Ofan á allt þetta hefur Gísli lýst, hvernig allar þessar brotnu reglugerðir halla í raun mjög á neytendur, enda samdar í sjálfum einokunarstofnununum, án þess að neytendur eða samtök þeirra fái nærri að koma.

Ráðuneytin hafa ekki fyrir að svara ítrekuðum bréfum Neytendasamtakanna um þessi efni. Og ríkissaksóknari hreyfir sig ekki, þótt uppi sé rökstuddur grunur um meiri fjárhæðir en allra samanlagðra Litla-Hraunsmanna frá upphafi.

Almenningur hefur ástæðu til að þakka Gísla þrautseigjuna. Menn þurfa að hafa töluverðan kjark til að heyja svo vonlitla baráttu við alráða einokunarstjóra, sem virðast sjúklega andvígir viðskiptavinum sínum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið