Engar fræðilegar skýringar duga á eindregnum og nánast blindum stuðningi kjósenda við ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Staðreyndin blasir bara við eins og hvert annað náttúrufyrirbæri, jafn óhagganlegt og það er óskiljanlegt.
Ekki er nóg með, að ríkisstjórnin sé vinsæl, heldur fara vinsældir hennar þar á ofan vaxandi. Fylgi hennar hefur síðan í haust aukizt úr 41% í 62% meðal kjósenda almennt og úr 61% í 75% þeirra, sem afstöðu taka.
Niðurstöður skoðanakönnunar Dagblaðsins verða ekki heldur skýrðar með því að benda á hina óákveðnu. Þeir eru nefnilega furðu fáir að þessu sinni, aðeins 18% hinna spurðu. Svo lág hlutfallstala er einkar sjaldgæf.
Freistandi væri að telja þennan hóp fela í sér þann helming kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem ekki hefur tekið trú á Gunnar Thoroddsen – og gera jafnframt ráð fyrir að hinn helmingurinn styðji ríkisstjórnina!
Við það mundi auðvitað vakna spurning um, hvar sé flokksbrot Geirs Hallgrímssonar. Finnst það tæpast utan þingflokks og miðstjórnar? Væri þá komin sú flokksforusta veraldarsögunnar, sem mest er utan gátta.
Þessar hugleiðingar eru auðvitað ótímabærar, enda kannski meira settar fram í gamni en alvöru. Framhjá því verður þó ekki gengið, að niðurstaða skoðanakönnunarinnar er verulegt áfall fyrir forustu Sjálfstæðisflokksins.
Haldið hefur verið fram, að áramótaaðgerðirnar í efnahagsmálum hafi aukið veg ríkisstjórnarinnar. Á þeirri kenningu er þó sá hængur, að ráðstafanir þessar njóta töluvert minna fylgis en ríkisstjórnin nýtur sjálf.
Meðan tveir þriðju kjósenda styðja efnahagsaðgerðirnar, styðja þrír fjórðu þeirra ríkisstjórnina. Sennilega felst mismunurinn einkum í kjósendum á vinstri væng, sem styðja stjórnina almennt, en eru hlutlausir gagnvart aðgerðunum.
Ef ráðstafanaþáttur og ríkisstjórnarþáttur könnunar Dagblaðsins eru bornir saman, kemur í ljós, að eðlilegast er að telja þá, sem efast um aðgerðirnar, vera fremur á vinstri væng stjórnmálanna en hinum hægri.
Þetta merkilega samhengi stingur í stúf við þá fullyrðingu Þorsteins Pálssonar hjá vinnuveitendum, að kjósendur hafi í könnuninni játað aðgerðunum “upp við vegg”. Hann er þar svo utan gátta, að hann gæti þess vegna tekið við af Geir!
Markverðari eru þau ummæli Kjartans Jóhannssonar, formanns Alþýðuflokksins, að könnunin sýni “allt of mikið fylgi við allt of lélega ríkisstjórn”. Í orðum hans felst nokkur sannleikur, þótt þau séu öðrum þræði sjálfvirk stjórnarandstaða.
Sannleikurinn er nefnilega sá, að engin ríkisstjórn er svo góð, að hún eigi skilið stuðning þriggja kjósenda af hverjum fjórum. Þvílík einstefna er ríkisstjórn og kjósendum tæpast holl til lengdar.
En kjósendur höfðu orðið. Þeir telja ríkisstjórnina vera betri en hinar næstu þar á undan og búast ekki við betri ríkisstjórn á eftir þessari. Þeir telja hana vera að reyna að stjórna. Og þeir sjá á henni fleiri bjartar hliðar en dökkar.
Þetta er það, sem lesa má úr ummælum þeirra, sem spurðir voru í skoðanakönnun Dagblaðsins. Og í ummælunum felast vafalaust merkari tíðindi en í hugleiðingu þessa blaðs og annarra um hina makalaust vinsælu ríkisstjórn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið